Skip to main content

Kirkjan á eins árs afmæli hrunsins

Eftir september 30, 2009janúar 10th, 2020Fréttir

Þjóðkirkjan stendur fyrir söfnun í kirkjum landsins fyrir fjölskyldur og heimili sem orðið hafa illa úti í hruninu. Söfnunarfé rennur til innanlandsaðstoðar Hjálparstarfs kirkjunnar. Mælst er til þess að almenn samskot verði í guðsþjónustum. Einnig verður hægt að gefa beint til Hjálparstarfsins.

Fyrir ári síðan skall efnahagskreppa á íslenskri þjóð. Um allt land brugðust söfnuðir við og sinntu þeirri skyldu sinni að aðstoða fólk, bæði með sérstökum verkefnum og í samvinnu við sveitarfélög, stofnanir og félagasamtök.

Mikið hefur mætt á Hjálparstarfi kirkjunnar. Umsóknum um aðstoð fjölgaði gríðarlega, nýir hópar sóttu um aðstoð. Sem dæmi má nefna að í september 2008 varði Hjálparstarfið 900.000 krónum í aðstoð, mat, lyf, skólagjöld, skólavörur, tómstundagjöld og fleira. Í september 2009 var þessi upphæð um 8 milljónir króna.

Dæmi um aðstoð sem er veitt: • Helgarmatur sem gefinn er handa fjögurra manna fjölskyldu kostar 8 – 10.000 krónur. • Aðstoð vegna barna í eitt skipti kostar 5.000 krónur. • Styrkur til tómstunda iðkunar barna kostar 10 -15.000 Það er ljóst að þörf fyrir aðstoð mun aukast í vetur.

Því stendur Þjóðkirkjan fyrir söfnun með samskotum í messum dagana 4. og 11. október. Einnig verður hægt að nálgast Hjálparstarf kirkjunnar beint með framlög, sjá www.help.is og www.kirkjan.is.