Kjalarnessprófastsdæmi og Evangelische Kirche in Deutschland (EKD) standa að fræðslu- og kynnisferð kirkjuþingsfulltrúa til höfuðstöðva EKD dagana 29.-31. ágúst. Í ferðinni fer fram kirkjuréttarleg kynning á starfsemi sambandslandskirknanna (Landeskirche) í Hannover.
Hópurinn hefur hist til undirbúnings og unnið með gögn til upplýsingar og fræðslu undir handleiðslu Gunnars Kristjánssonar prófasts.
Mánudag 29. ágúst og þriðjudag 30. ágúst verður kynningardagskrá í höfuðstöðvum EKD og Sambandslandskirkjunnar í Hannover (sjá meðfylgjandi dagskrá). Meðal þess sem verður skoðað er uppbygging á kirkjustofnunum þýsku kirknanna, mismunandi gerðir kirkjuskipana, fjármálakerfi sambandslandskirkju, kosningafyrirkomulag og þátttaka leikfólks.
Miðvikudaginn 31. ágúst verður haldið til Loccum klausturs. Þar er starfrækt evangelísk akademía, sem ermerkilegar samfélagsstofnun. Þar er líka haldið utan um starfsþjálfun prestsnema.
Kirkjuskipan 2011 er verkefni á vegum Kjalarnessprófastsdæmis. Kirkjuþingsfulltrúar kynna sér starfsemi og stjórnsýslu þýsku kirkjunnar. Kynnisferð til Hannover er unnin í samstarfi við EKD.