Skip to main content

Kirkjuskipan 2011: Samstarf er málið

Eftir ágúst 30, 2011Kirkjuskipan 2011

Á öðrum vinnudegi tók íslenski kirkjuþingshópurinn þátt í dagskrá á skrifstofu landskirkjunnar í Hannover fyrri partinn og í kirkjuamti EKD seinni partinn.
Hannover 2011 Zentrum

Á Hannover skrifstofunni hitti hópurinn fjármálastjóra og kirkjuréttarfræðing kirkjunnar. Fluttar voru framsögur um fjármál þýsku kirkjunnar og hlutverk ólíkra stjórnunareininga.

Kirkjuskatturinn er aðaltekjulind kirkjunnar í Þýskalandi. Þannig standa hrein meðlimagjöld undir nær öllu starfi kirkjunnar. Fyrirkomulagið hefur sínar sterku og veiku hliðar. Samhliða breytingum á skattalöggjöf og fækkun meðlima í kirkjunni hefur þurft að vinna að langtímaskipulagi kirkjustarfsins með miklar breytingar í huga.

Helstu breytingar sem eru nauðsynlegar og þegar í farvatninu eru þær að:

a) styrkja sjálfboðna þjónustu á öllum stigum kirkjustarfsins
b) forgangsraða verkefnum – fækka kjarnaverkefnum
c) breyta skipulagi – fækka einingum
d) fækka byggingum kirkjunnar
e) skipuleggja fækkun launaðra starfsmanna fram í tímann
f) huga að eftirlaunakerfi

Einnig kynntist kirkjuþingshópurinn frá Íslandi hlutverki prófastsdæmanna (Kirchenkreis) í þýsku kirkjunni.

Prófastsdæmin hafa tekið að sér aukið hlutverk í miðlun og stuðningi við starfið í söfnuðunum síðustu ár. Helstu áskoranir sem blasa við starfi prófastsdæmanna eru t.d. sjálfmiðlægni safnaðanna sem líta á sig sem eyland en ekki hluta af samfélagi.

Þýska kerfið er afar hvetjandi fyrir samstarf á öllum sviðum og ætíð er verið að leita leiða til að styrkja svæðisbundið samstarf í þeim tilgangi að auka tilfinningu fyrir samhengi og samfélagi í kirkjunni.

Fundargerð dagsins fer nánar í framsögur og umræður.

Kirkjuskipan 2011 er verkefni á vegum Kjalarnessprófastsdæmis. Kirkjuþingsfulltrúar kynna sér starfsemi og stjórnsýslu þýsku kirkjunnar. Kynnisferð til Hannover er unnin í samstarfi við EKD – Evangelische Kirche in Deutschland.