Skip to main content

Kirkjuskipan 2011: Samtal við samtímann

Eftir ágúst 31, 2011Kirkjuskipan 2011

Í Loccum mætast gamli og nýi tíminn. Þar stendur klaustur frá 13. öld sem zistersíensarmunkar stofnuðu. Í dag er þar miðstöð starfsmenntunar presta og um 100 prestar stunda þar nám að jafnaði.


Kloster Loccum
Þýska kirkjan borgar laun guðfræðinga í rúm tvö ár eftir að námi lýkur og þann tíma starfa þeir sem prestar í starfsþjálfun í söfnuði. Fjórum sinnum á tímabilinu tekur við fjögurra vikna dvöl í prestaseminarinu þar sem farið er í praktíska hluti starfsins – prédikun, sálgæslu, safnaðarstjórnun ofl.  Aðeins eftir þann tíma geta prestar sótt um fastar stöður í söfnuði.

Í Loccum er líka starfrækt evangelísk akademía. Það er stofnun sem hefur það að markmiði að standa fyrir samtali og fræðslu um málefni líðandi stundar í samfélaginu. Evangelíska akademían í Þýskalandi er rekin af kirkjunni en starfar afar sjálfstætt. Hún á rætur sínar að rekja til tímans eftir seinna stríð þegar evangelíska kirkjan tók þátt í að byggja upp samfélagið eftir hörmungar styrjaldarinnar.

Akademían í Loccum er ein af stærri stofnunum af sínu tagi í Þýskalandi. Þar eru fastráðnir 14 kennarar með ólík sérsvið sem sjá um að skipuleggja námskeið og ráðstefnur. Starfsemi hennar er ekki síst hugsuð til að stuðla að samtali um mikilvæg mál sem dýpka skilning og sjónarmið þeirra sem koma að mótun samfélagsins. Sem slík er hún áhrifamikið tæki kirkjunnar til að leggja sitt af mörkum í uppbyggingu samfélagsins.

Nánari upplýsingar um bakgrunn og sögu evangelísku akademíunnar er að finna í greinargerð sem lögð var fyrir kirkjuþing árið 1987.

Kirkjuskipan 2011 er verkefni á vegum Kjalarnessprófastsdæmis. Kirkjuþingsfulltrúar kynna sér starfsemi og stjórnsýslu þýsku kirkjunnar. Kynnisferð til Hannover er unnin í samstarfi við EKD – Evangelische Kirche in Deutschland.