Skip to main content

Kjörskrá í biskupskjöri lögð fram

Eftir febrúar 1, 2012janúar 10th, 2020Fréttir

Kjörstjórn við biskupskosningu hefur, í samræmi við starfsreglur um kosningu biskups Íslands og vígslubiskupa nr. 1108/2011, samið kjörskrá vegna kjörs biskups Íslands. Á kjörskrá eru 492.

Kjörskráin miðast við 1. febrúar 2012. Hún liggur frammi til sýnis á Biskupsstofu, Laugavegi 31, Reykjavík, og hjá próföstum til fimmtudagsins 9. febrúar 2012. Einnig er hægt að skoða kjörksrána á vef þjóðkirkjunnar.

Kærur til breytinga á kjörskránni þurfa að hafa borist kjörstjórn á Biskupsstofu fyrir kl. 16.00, fimmtudaginn 9. febrúar nk., eða hafa verið póstlagðar í síðasta lagi þann dag.

Kjörstjórn úrskurðar kærur og gengur endanlega frá kjörskrá innan viku frá lokum kærufrests. Niðurstöður kjörstjórnar munu liggja frammi á Biskupsstofu og á vefnum.

Þetta kemur fram í auglýsingu frá kjörstjórn sem var birt á kirkjan.is í dag.

Framboðsfrestur

Þar kemur einnig fram að framboðsfrestur sé til 29. febrúar næstkomandi. Sá eða sú sem hyggst gefa kost á sér sem biskup Íslands skal tilkynna það kjörstjórn í seinasta lagi kl. 16 þann dag eða postleggja tilkynningu á þeim degi.

Boðað til auka kirkjuþings

Þá hefur verið boðað til auka kirkjuþings 4. febrúar næstkomandi. Ástæðan er beiðni kjörstjórnar fyrir biskupskjör um breytingar á starfsreglum þar sem kjörstjórnin telur ákveðin tormerki á að kosningar verði rafrænar eins og starfsreglur kveða á um.

X