Skip to main content

Kynferðisleg misnotkun og rétt viðbrögð í kirkju og trúfélögum

Eftir október 17, 2011janúar 10th, 2020Fréttir

Dr. Marie M. Fortune er einn virtasti fagaðili heims á sviði fræðslu- og forvarnarmála um kynferðislegt ofbeldi. Hún er stödd á Íslandi og talar á málþingi og námskeiði um forvarnir og viðbrögð við kynferðislegri misnotkun í samhengi kirkju og trúfélaga, 18. og 19. október.
Mennskar styttur bera boðskap

Um Marie M. Fortune
Fortune er guðfræðingur og vígður prestur í The United Church of Christ. Hún stofnaði FaithTrust Institute í Seattle árið 1977 og veitir henni forstöðu. FaithTrust stofnunin býður upp á þjálfun, ráðgjöf, kennslu og fræðsluefni í því markmiði að binda endi á kynferðislegt ofbeldi og heimilisofbeldi og hefur Fortune sinnt þessum verkefnum í fjölda landa, með ólíkri menningu og trúarbrögðum. Markmiðið með komu hennar til Íslands er að sem flestir njóti þekkingar hennar og reynslu.

Fortune gaf út bókina Sexual Violence. The Unmentionable Sin árið 1983 þar sem hún fjallar um kynferðislegt ofbeldi frá sjónarhóli guðfræði, siðfræði og sálgæslu. Markmið bókarinnar var að rjúfa þögnina um kynferðislegt ofbeldi innan kristinna kirkna og safnaða og leitast við að þjálfa presta og annað starfsfólk kirkjunnar í að þekkja einkenni kynferðisofbeldis og styðja og reisa upp fórnarlömb þess. Rúmlega tuttugu árum síðar, 2005, kom svo út bókin Sexual Violence. The Sin Revisited þar sem Fortune tekur upp þráðinn að nýju og endurskoðar og endurmetur stöðu þessa málaflokks innan kristinna kirkna í ljósi þeirrar reynslu sem hún hefur öðlast gegnum áratuga starf á sviðinu.

18. október: Kynferðisleg misnotkun á börnum í trúarlegu samhengi

Málþing í Hátíðarsal Háskóla Íslands þriðjudaginn 18. október 2011 kl. 10-13

Aðalfyrirlesari: Rev. Dr. Marie M. Fortune

Stutt erindi flytja:
Dr. Berglind Guðmundsdóttir sálfræðingur við Landspítala
Brynhildur G. Flóvenz lögfræðingur og dósent við Lagadeild HÍ
Guðrún Ebba Ólafsdóttir kennari og stjórnarmaður Blátt áfram og Drekaslóðar
Sr. Sigfinnur Þorleifsson sjúkrahúsprestur og lektor við Guðfræði og trúarbragðafræðideild HÍ
Dr. Sólveig Anna Bóasdóttir guðfræðingur og dósent við Guðfræði og trúarbragðafræðideild HÍ
Stjórnandi málþings: Elín Hirst, fréttamaður

Aðgangur er ókeypis og málþingið er öllum opið.

Nánar á Facebook

19. október: Kynferðisleg misnotkun og rétt viðbrögð í samhengi kirkju og trúfélaga

Námskeiðið Kynferðisleg misnotkun og rétt viðbrögð í samhengi kirkju og trúfélaga verður haldið í Neskirkju 19. október nk. kl. 8:30-17. Fyrirlesari er Rev. Dr. Marie M. Fortune. Vilborg Guðbjörg Guðnadóttir geðhjúkrunarfræðingur og meðlimur Fagráðs kirkjunnar kynna drög að leiðbeiningum um vinnu með fólki í viðkvæmum aðstæðum. Stjórnandi er sr. Gunnar Rúnar Matthíasson formaður Fagráðs kirkjunnar.

Að málþinginu standa Fagráð um meðferð kynferðisbrota innan Þjóðkirkjunnar, Guðfræði og trúarbragðafræðideild HÍ og Guðrún Ebba Ólafsdóttir.

Dagskrá

8:30 Afgreiðsla námskeiðsgagna
9-11.30 Verum vakandi gagnvart kynferðislegri misnotkun í trúarlegu samhengi (Raising awareness – sexual misconduct and abuse within religious context/church)
12:30-14:30 Hvernig bregðast skal við svo réttlætis sé gætt (Framework for just response)
14:30-15 Kaffi
15-17 Mörk fagaðila í kirkjustarfi (Professional Boundaries in Church Work)
Ath. Uppröðun efnis getur breyst

Námskeiðið fer fram á ensku en fyrirlestrar Fortune verða textaðir á skjá. Námskeiðið er sniðið að þörfum kirkju og safnaða.

Að námskeiðinu standa Fagráð um meðferð kynferðisbrota innan Þjóðkirkjunnar, Guðfræði og trúarbragðafræðideild HÍ og Guðrún Ebba Ólafsdóttir.

Nánar á Facebook

Heimsóknin er kostuð af Þjóðkirkjunni, Guðfræðistofnun HÍ, Forlaginu, Prestafélagi Íslands, Kjalarnessprófastsdæmi, Reykjavíkurprófastsdæmi Eystra og Reykjavíkurprófastsdæmi Vestra.