Skip to main content

Kyrrðardagur í Mosfellsdal

Eftir september 19, 2012janúar 10th, 2020Fréttir

Um helgina verður haldinn kyrrðardagur í Mosfellskirkju í Mosfellsdal, þar sem áhersla er lögð á kristna íhugun og útiveru. Að sögn sr. Ragnheiðar Jónsdóttur sóknarprests, hentar Mosfellskirkja sérlega vel fyrir kyrrðarstarf. Umhverfið er sérlega fallegt og vekjandi, bæði frá náttúrunnar hendi og frá sögu og menningu svæðisins. „Á kyrrðardeginum förum við í hvarf og tökum okkur hlé frá daglegri önn. Þögnin og kyrrðin veita tækifæri til íhugunar, að mæta sjálfum sér og Guði, að sjá líf sitt í nýju ljósi, vinda ofan af sér haustið og láta uppbyggjast og endurnærast á sál og líkama“, segir sr. Ragnheiður. Hún hefur umsjón með dagskránni ásamt Sigurbjörgu Þorgrímsdóttur, djáknaefni.

Hefð er komin á kyrrðarstarf í Mosfellsdalnum en kyrrðardagar hafa verið haldnir um nokkurt skeið, að hausti, vori og á aðventu. „Á aðventunni hefjumst við handa á myrkum skammdegismorgni, íhugum og biðjum, og göngum síðan út í dagsbirtuna. Það er alveg magnað að upplifa komu ljóssins á þann hátt“ segir sr. Ragnheiður.

Kyrrðardagurinn er laugardagurinn 22. september kl. 10-16. Upplýsingar og skráning eru hjá sr. Ragnheiði í síma 869 9882. Hægt er að fylgjast með kristnu kyrrðarstarfi á nýrri heimasíðu.

X