Skip to main content

Mikil þátttaka á Landsmóti æskulýðsfélaga

Eftir október 25, 2012janúar 10th, 2020Fréttir

Það verður mikið um dýrðir á Egilsstöðum um helgina þegar um 600 ungmenni úr æskulýðsstarfi kirkjunnar koma saman á Landsmóti æskulýðsfélaga.

Yfirskrift mótsins er H2Og sem minnir á mikilvægi vatnsins í velferð manneskjunnar. Mótið er í samvinnu við Hjálparstarf kirkjunnar sem vinnur m.a. þróunarstarf í Malaví en gestir þaðan munu taka þátt í Landsmótinu.

Unglingar af öllu landinu verða á Egilsstöðum ásamst prestum, æskulýðsfulltrúum og sjálfboðaliðum til að eiga skemmtilega og uppbyggilega helgi auk þess að fræðast og vinna saman um mikilvægi vatnsins í heiminum.

Lengst að fara frá Garðinum

Um 80 krakkar fara frá Kjalarnessprófastsdæmi með prestum og leiðtogum á Egilsstaði. Lagt verður af stað í bítið á föstudagsmorgni með rútum og keyrt eins og leið liggur á Egilsstaði þar sem Landsmót verður sett kl. 19.

Myndarlegur hópur fer frá Suðurnesjum á Landsmótið og líklega leggja krakkarnir þaðan mest land undir fót, til að komast á Landsmótið en krakkarnir í Garðinum leggja af stað kl. 6.40 að morgni. Það hefur ríkt tilhlökkun í hópnum sem fer frá Útskálaprestakalli, að sögn sóknarprestsins þar, sr. Sigurðar Grétar Sigurðssonar, sem þjónar í Sandgerði og Garði. Krakkarnir hafa undirbúið ferðina vel og hlotið styrki frá prófastsdæminu og sókninni til ferðarinnar.

Landsmótinu lýkur með messu á sunnudaginn í Íþróttahöllinni en hér má sjá dagskrá mótsins. Heimasíða Æskulýðssambands þjóðkirkjunnar gerir ennfremur góða grein fyrir því sem gerist á Egilsstöðum um helgina.