Skip to main content

Nei eða já?

Eftir september 13, 2012janúar 10th, 2020Fréttir

Væntanleg atkvæðagreiðsla þar sem meðal annars verður tekin afstaða til þess hvort í stjórnarskrá skuli vera ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi var meðal þess sem var rætt á haustfundi prófasts með prestum og djáknum í Vídalínskirkju í morgun. Fundurinn hófst með helgistund í umsjón sr. Jónu Hrannar Bolladóttur sóknarprests en hún leiddi hópinn í hugleiðslu og slökun með bæn.

Eftir helgistund sr. Jónu Hrannar var rætt um stöðu hugleiðslunnar og dulúðarinnar í kristinni trú en þar er úr djúpum sjóðum að ausa, þótt þeir séu ekki alltaf vel nýttir. Dulúðin beinir athygli okkar að reynslu mannsins og löngun í andlegheit (spiritualitet) en í samtímanum eykst slíkt frekar en hitt.

Á vettvangi prófastsdæmisins eru nokkrir atburðir á döfinni. Leiðarþing verður 3. október í Mosfellsbæ, hefst með helgistund í Mosfellskirkju kl. 17.30 en fundarhöld fara fram í Hlégarði. Á Leiðarþingið koma vígslubiskup í Skálholti og umsjónarmaður verkefnisins Energí og trú í Keflavíkurkirkju. Á leiðarþing eiga sæti formenn sóknarnefnda, safnaðarfulltrúar, prestar og djáknar. Starfsmenn sóknanna eru sömuleiðis velkomnir á leiðarþing.

Prédikunarseminar verður 7.-9. október í Skálholti. Fyrirlesari verður Wilhelm Gräb sem mun deila efni úr prédikunarfræði sinni en hún er að koma út um þessar mundir. Gräb, sem hefur áður komið á prédikunarseminar Kjalarnessprófastsdæmis, er meðal fremstu praktísku guðfræðinga mótmælenda og hefur mikið að miðla til íslenskra presta.

Prófastur leiddi þá umræðu um væntanlega atkvæðagreiðslu um stjórnarskrá og þjóðkirkjuákvæði. Fundarmenn lögðu ýmislegt til málanna um stöðu kirkjunnar og málefni þjóðkirkjunnar og trúarinnar í samfélaginu í dag. Ekki síst lá á fundinum hvort fólk tæki afstöðu til þjóðkirkjuákvæðis út frá skoðun þeirra á kirkjustofnuninni frekar en trúarafstöðu. Ennfremur voru skiptar skoðanir á því hvort þjóðkirkjuákvæði í stjórnarskrá sé hjálplegt kirkjunni og þjónustu hennar í samfélaginu. Ljóst er að prestar prófastsdæmisins munu fara ólíkar leiðir  í atkvæðagreiðslunni í október næstkomandi og styðst þar hver við sína sannfæringu um hvað sé íslensku þjóðkirkjunni fyrir bestu.

Fundurinn staðnæmdist við aðstæður sem koma upp í auknum mæli um þjónustu presta og aðgengi í kirkjuhúsum í tengslum við trúfélagsaðild. Vilji er til þess að þessi mál verði tekin upp á vettvangi prófastsdæmisins og málinu vísað til prófasts og héraðsnefndar.

Kl. 12 var gengið til máltíðar og formlegum fundarstörfum lauk en umræður héldu áfram.

 

 

X