Skip to main content

Hin pólitíska prédikun

Eftir apríl 13, 2011janúar 10th, 2020Fréttir

Pólitísk prédikun lætur sig varða samfélagið og málefni þess. Hún lætur sig varða hvernig samfélagið þróast og hver grunngildi þess eru. Pólitísk prédikun lætur sig þetta varða, sem og þau mál sem eru efst á baugi hverju sinni í samfélaginu.

Þetta segir dr. Gunnar Kristjánsson í viðtali um hina pólitísku prédikun og texta pálmasunnudagsins við Kristínu Þórunni Tómasdóttur og Árna Svan Daníelsson.

Dr. Gunnar Kristjánsson

Gunnar segir hina pólitísku prédikun hafa verið sterka í sögu 20. aldar og sett mark sitt á kirkjulífið. Dæmi um það eru frá heimstyrjöldinni og baráttunni fyrir borgaralegum réttindum minnihlutahópa.

Þá stunduðu spámenn Gamla testamentisins og Jesús sjálfur hina pólitíska prédikun. Dauði Jesú þarf einmit að skiljast í því ljósi – Jesús talar og boðar samkvæmt samvisku sinni og setur þar með ákveðin málefni á oddinn, þvert á velþóknun þeirra sem ráða.

Grunnur hinnar pólitísku prédikunar er því biblíulegur – eins og við sjáum í frásögum Gala testamentinu um spámennina og Nýja testamentinu um starf Jesú.

Hlutverk prestsins sem prédikar er áhugavert í þessu samhengi. Hjá Ísraelsmönnum var staður prestsins í musterinu í helgiþjónustunni en það voru spámennirnir sem höfðu það hlutverk að tala um málefni líðandi stundar. Þeir voru við borgarhliðin og nutu ekki skjóls helgistaðarins eins og prestarnir. Þeir voru því berskjaldaðir gagnvart viðbrögðum sem prédikanir þeirra vöktu.

Í lútherskri hefð er presturinn í báðum þessum hlutverkum, að sinna helgiþjónustunni og prédikuninni. Við sjáum hvernig Lúther lifði samkvæmt þessu sjálfur. Skynsemi prédikarans og biblíulegur grunnur eru tvö lykilatriði hér.

Breytni manneskjunnar er alltaf viðfangsefni prédikunarinnar. Prédikun má ekki snúast um ritskýringu eða trúfræði. Hin pólitíska prédikun setur þannig nýjar kröfur á prestinn. Sá og sú sem prédikar þarf að setja sig vel inn í málin, hvort sem um kynþáttafordóma eða kvótakerfið er að ræða.

Hin pólitíska prédikun er einn mælikvarði á trúverðugleika kirkjunnar í samtímanum.

Hluta á fyrri hluta samtalsins

Guðspjall Pálmasunnudags

Jesús var í Betaníu, í húsi Símonar líkþráa, og sat að borði. Þá kom þar kona og hafði alabastursbuðk með ómenguðum, dýrum nardussmyrslum. Hún braut buðkinn og hellti yfir höfuð honum. En þar voru nokkrir er gramdist þetta og þeir sögðu sín á milli: „Til hvers er þessi sóun á smyrslum? Þessi smyrsl hefði mátt selja fyrir meira en þrjú hundruð denara og gefa fátækum.“ Og þeir atyrtu hana.
En Jesús sagði: „Látið hana í friði! Hvað eruð þið að angra hana? Gott verk gerði hún mér. Fátæka hafið þið jafnan hjá ykkur og getið gert þeim gott nær þið viljið en mig hafið þið ekki ávallt. Hún gerði það sem í hennar valdi stóð. Hún hefur fyrir fram smurt líkama minn til greftrunar. Sannlega segi ég ykkur: Hvar sem fagnaðarerindið verður flutt, um heim allan, mun og getið verða þess sem hún gerði og hennar minnst.“ Mrk 14.3-9

Hér spjalla Gunnar Kristjánsson og Kristín Þórunn Tómasdóttir um guðspjall Pálmasunnudagsins skv. textaröð B, um konuna sem smurði höfuð Jesú með dýrum smyrslum. Hvernig kemur hin pólitíska prédikun fram í þessum texta?

Hlusta á síðari hluta samtalsins