Skip to main content

Safnað fyrir tveimur steinhúsum

Eftir mars 20, 2017janúar 10th, 2020Fréttir

Á æskulýðsdegi þjóðkirkjunnar 5. mars síðastliðinn tóku börn og unglingar á Suðurnesjum, Kjalarnesi, Hafnarfirði, Garðabæ og Álftanesi höndum saman og söfnuðu fyrir steinhúsum fyrir munaðarlaus börn í Úganda. Þau stóðu m.a. fyrir kaffisölu, kaffihúsi, fjáröflunarbingó og einnig var safnað framlögum með samskotum við guðsþjónustur. Nokkrar kirkjur munu halda söfnuninni áfram út vorið, en nú hafa safnast 287.227.- kr. og fyrir þá upphæð er hægt að byggja tvö steinhús fyrir munaðarlaus börn.

Söfnunin fór fram með fjölbreyttum hætti. Í Keflavíkurkirkju voru unglingar með kaffihús eftir æskulýðsmessu, í Bessastaðakirkju seldi æskulýðsfélagið mat eftir síðdegismessu og í Ástjarnarkirkju héltu börn og unglingar fjáröflunarbingó og voru með kaffiveitingar. Í Útskálakirkju og safnaðarheimili Sandgerðis stóðu ungmenni fyrir kaffisölu eftir messu. Í Hafnarfjarðarkirkju föndruðu fermingarbörnin söfnunarbauk sem var látin ganga um kirkjuna við guðsþjónustu dagsins og í Vídalíns-, Brautarholts- og Víðistaðakirkju var sagt frá verkefninu í æskulýðsmessu og tekið við samskotum.

Í Úganda hafa mörg börn misst foreldra sína úr eyðni og þau búa við bág kjör í hrörlegum húsum með stráþaki. Hjálparstarf kirkjunnar hefur lagt á það áherslu að bæta aðstæður þessara barna með því að byggja múruð steinhús með bárujárnsþaki. Þau veita skjól fyrir vindi, vatni og nætursvalanum. Einnig er minni hætta á smiti og sjúkdómum og af bárujárnsþakinu er hægt að safna vatni sem dugar langt inn í þurrkatímabilið. Unglingar taka þátt í byggingu húsanna sem læra um um leið handverkið sem mun nýtast þeim til framtíðar.

Það er dýrmætt fyrir börn og unglinga að finna að þau geta lagt lið og með samstarfi og samhentu átaki er hægt að koma svo miklu í verk sem veitir von, bjartsýni og margfalda blessun.