Skip to main content

Stefnumótun og kærleiksþjónusta á erfiðum tímum

Eftir október 3, 2012janúar 10th, 2020Fréttir

Leiðarþing Kjalarnessprófastsdæmi var haldið miðvikudaginn 3. október, í Lágafellssókn. Leiðarþingið er auka héraðsfundur prófastsdæmisins, þar sem lögbundin verkefni sem ekki klárast á héraðsfundi, eru til lykta leidd. Þar að auki eru á dagskrá kynning á ýmsum verkefnum í söfnuðum prófastsdæmisins.

Þátttakendur komu saman kl. 17.30 í Mosfellskirkju í Mosfellsdal, þar sem sóknarpresturinn, sr. Ragnheiður Jónsdóttir, leiddi kyrrðar- og bænastund samkvæmt leiðbeiningum og aðferð Lectio divina. Sungnir voru sálmar, sem hafa bæst við sálmasjóð þjóðkirkjunnar, eftir K.K. og Kristján Val Ingólfsson.

Þá var haldið í Hlégarð í Mosfellsbæ þar sem gengið var til boðaðrar dagskrár. Stungið var upp á Sigurjóni Péturssyni, formanni sóknarnefndar Hafnarfjarðarsóknar sem fundarstjóra, og var það samþykkt.

Sigurjón gaf prófasti, dr. Gunnari Kristjánssyni, orðið. Prófastur fór yfir starfsemi prófastsdæmisins frá því héraðsfundur var haldinn síðastliðið vor og málefni sem eru efst á baugi í kirkju og samfélagi.

Þá voru samanteknir ársreikningar sókna lagðir fram en það var gjaldkeri héraðssjóðs, Ásbjörn Jónsson sem gerði það.

Prófastur kynnti því næst starfsáætlun héraðssjóðs fyrir 2013. Fastir liðir eru skrifstofukostnaður, útgáfa, námskeið og fræðsla, funda- og ferðakostnaður. Stærsti liður starfsáætlunar eru framlög til safnaðanna á grundvelli umsókna til héraðssjóðs.

Að lokum lagði Ásbjörn Jónsson fram rekstaráætlun héraðssjóðs 2013 og fór yfir hana.

Fundarstjóri bauð þar næst upp á umræður um liðina ávarp prófasts, reikninga sókna, starfs- og fjárhagsáætlun héraðssjóðs. Líflegar umræður urðu um stöðu safnaðanna eftir mikinn niðurskurð og samdrátt á sóknargjöldum. Beint dæmi um áhrif samdráttarins var tekið af Hafnarfjarðarsókn, þar sem sóknargjöld voru 73 milljónir árið 2008 en voru komin niður í 57 milljónir árið 2012.  Aðstæður safnaðanna eru síðan enn flóknari út af hækkaðri vísitölu og erfiðara rekstrarumhverfi.

Þá var boðinn velkominn í pontu vígslubiskup Skálholtsstiftis, sr. Kristján Valur Ingólfsson, sem ávarpaði leiðarþingsfulltrúa. Kristján Valur lagði áherslu á mikilvægi þess að horfa með raunsæjum augum á erfiða stöðu kirkjunnar en missa þó ekki sjónar á því hvaða hlutverki trúin gegnir og hvaða áhrif hún hefur í lífinu. Þar gegnir hvert og eitt okkar lykilhlutverki.

Kl. 19 var gengið til kvöldverðar.

Eftir kvöldverð var kynning á verkefninu Energí og trú sem Keflavíkurkirkja hefur starfrækt m.a. með styrk frá prófastsdæminu síðustu ár. Hjördís Kristinsdóttir starfsmaður safnaðarins greindi frá opnun og rekstri Gömlu Grágásar sem er vettvangur í eigu Hjálpræðishersins og Keflavíkursóknar.

Síðasti liður á dagskrá leiðarþings var erindi dr. Runólfs Smára Steinþórsson formaður sóknarnefndar í Lágafellssókn, um stefnumótun safnaða. Runólfur Smári lýsti stefnumótunarvinnu sem vinnu með sjálfsmynd. Mikilvægast sé að hafa lykilatriði á hreinu, eins og hvaða starfi söfnuðurinn eigi að sinna og hvaða forsendur liggja til grundvallar starfinu. Góður rómur var gerður að erindi dr. Runólfs Smára og nokkrar umræður um efni þess.

Kl. 21.30 tók prófastur til máls, þakkaði viðstöddum fyrir fróðlegan og gagnlegan fund og sleit að því mæltu leiðarþinginu.