Skip to main content

Við stefnum öll sama marki – nýkjörinn biskup heimsækir Kjalarnessprófastsdæmi

Eftir maí 10, 2012janúar 10th, 2020Fréttir

Sr. Agnes M. Sigurðardóttir, sem er nýkjörinn biskup Íslands, var gestur á vorfundi presta, djákna og formanna sóknarnefnda í Kjalarnessprófastsdæmi í gær. Á fundinum var starfið í prófastsdæminu kynnt stuttlega og fundarmönnum gafst tækifæri til samtals við hinn nýkjörna biskup. Um þrjátíu manns úr prófastsdæminu öllu sóttu fundinn.

Agnes M. Sigurðardóttir og Gunnar Kristjánsson

Fjölbreytt og framsækið kirkjustarf

Dr. Gunnar Kristjánsson, prófastur, bauð Agnesi velkomna og óskaði henni til hamingju með kjörið. Hann gat þess að þau Agnes hefðu átt gott samstarf á vettvangi prófastsfundar og nefndi einnig að hún hefði tekið þátt í prédikunarseminörum Kjalarnessprófastsdæmis og fræðsluferð á slóðir siðbótarinnar og Marteins Lúthers.

Hann sagði einnig frá starfinu í prófastsdæminu og sagði að í Kjalarnessprófastsdæmi væri sterk vitund um framsækja kirkjustefnu sem er meðvituð um hefðir og siði og opin fyrir nýjungum í boðun og helgihaldi, embættisþjónustu prestanna, starfi með börnum og unglingum, fræðslu, hugleiðslu og íhugun, Biblíulestrum, kórastarfi, fermingarstarfi, þjónustu við ólíka hópa, skapandi iðju. Hér er fjölbreytt kirkjustarf og fjölbreytni þess eru engin takmörk sett.

Nokkur verkefni á vegum prófastsdæmisins voru kynnt stuttlega, þ.á.m. prédikunarseminar Kjalarnessprófastsdæmis, þátttökukirkjan, og útgáfa á ritum eins og Á mælikvarða mannsins og Þjóðkirkjan og lýðræðið. Þá var sagt frá nýrri rafbók um Martein Lúther og siðbótina sem prófastsdæmið styrkti.

Blómvöndurinn

Hans Guðberg Alfreðsson, Agnes M. Sigurðardóttir og Elín Jóhannsdóttir

Við stefnum öll að sama marki

Þegar hún var kjörin sagði Agnes að sitt fyrsta verkefni yrði að hlusta og í gær sagði hún að til þess væri hún komin á þennan fund. Hún lagði áherslu á að það væri sameiginlegt verkefni allra sem starfa fyrir kirkjuna að vinna að því að fagnaðarerindið næði til fólks. „Það gerum við saman,“ sagði Agnes, „en við erum í ólíkum hlutverkum.“

Hún lagði ríka áherslu á mikilvægi samstöðu og samvinnu í kirkjunni. Hún vill leggja sig fram um að ná þannig einingu í kirkjunni að okkur finnist við vera að vinna að sama markmiði. Öll höfum við hæfileika á vissum sviðum og það þarf að nýta.

Prófastsdæmin í kirkjunni eiga einnig að fá að njóta sín og við eigum að nýta frumkvæðið á hverjum stað. Þannig getur hvert svæði, hvert prófastsdæmi, gefið til kirkjunnar allrar.

Agnes kallaði eftir samtali fólksins í kirkjunni og sagði mikilvægt fyrir biskup að heyra bæði það sem jákvætt og neikvætt. Heyra af því sem er gott og því sem má betur fara. Hún bað fólkið í prófastsdæminu að vera óhrætt við að láta í sér heyra.

Kross í steini sem nýkjörinn biskup fékk afhentan

Fjölbreytt miðlun fagnaðarerindisins

Agnes sagði að það væri mikilvægt að fara margar leiðir við miðlun fagnaðarerindisins, nýta jafnt nýjustu tækni og gamalreyndar aðferðir. Hún sagðist líka hafa fengið þá hvatningu að vera nálæg og sýnileg sem biskup.

Hún talaði jafnframt um gildi þess að efla foreldrastarfið í kirkjunni. Það væri leiðin til að ná til barnanna því þau kæmu ekki ein í kirkjuna á sunnudagsmorgnum.

Gleði og umhyggja

Hún lagði áherslu á gleðina og sagði að ef við sem störfum fyrir kirkjuna erum viss um að við séum að vinna gott starf og höfum gott erindi þá eigum við að vera ánægð með það og brosa allan hringinn. Umhyggja er annað lykilorð fyrir hinn nýkjörna biskup. Við eigum að bera umhyggju fyrir launuðu og ólaunuðu starfsfólki.

Framundan eru verkefni sem þarf að vinna, ekki vandamál. Þannig vill hún takast á við starfið og lífið.

Það er gott veganesti fyrir kirkju á tímamótum.

Nánar

Fleiri myndir frá fundinum

Nýtt tímabil í kirkjunni, ávarp dr. Gunnars Kristjánssonar