Skip to main content

Ný heimasíða um útför í kirkju

Eftir nóvember 1, 2020Fréttir

Í dag er allra heilagra messa, en það er dagur helgaður minningu látinna ástvinna. Það er dagur sem við stöldrum við og rifjum upp fallegar og kærar minningar um látna ástvini. Í tilefni þessa dags opnar Kjalarnessprófastsdæmi vef um útför í kirkju, www.utforikirkju.is.  Í útför komum við saman til að þakka og kveðja látinn ástvin hinsta sinni, þökkum fyrir líf hans og allt það sem við fengum að njóta með honum.

Kirkjan hefur um aldir átt samfylgd með fólki við ástvinamissi. Það á við í aðdraganda andláts, undirbúning útfarar og takast á við missi og sorg.

Aðstæður okkar við ástvinamissi eru margvíslegar og oft persónubundið hvernig við bregðumst við. Þjónusta kirkjunnar er ávallt persónuleg og tekur mið af aðstæðunum hverju sinni. Það á einnig við um útförina sem er í senn persónuleg athöfn en um leið samfélagsleg. Í útförinni erum við minnt á sameiginlegt hlutskipti okkar mannanna að við fæðumst og deyjum. Þar er  sorg og söknuði gefið rými, einnig því sem ekki er hægt að færa í orð heldur aðeins skynjað og reynt. Þar skiptir máli að Guð er með í för. Í ljósi hans finnum við huggun og styrk í trú, von og kærleika. Að lyktum mun Guð sameina alla þá sem unnast í eilífu ríki sínu.

Við andlát ástvinar er að mörgu að hyggja og því hefur Kjalarnessprófastsdæmi sett upp heimasíðu um kirkjulega útför, www.utforikirkju.is. Þar er að finna upplýsingar um flest sem viðkemur útför í kirkju og þjónustu kirkjunnar. Yfirlit yfir hvað þarf að huga að við undirbúning útfarar ásamt umfjöllun um hvað er útför, tilgang sálma og tónlistar, börn og útför, sálgæslu og hvar er hægt að sækja sér styrk og aðstoð. Efninu er ætlað að auðvelda fólki undirbúning útfarar og fræða um útfararsiði kirkjunnar.

Heimasíðan var unnin af starfshópi á vegum Kjalarnessprófastsdæmis sem í eiga sæti sr. Arndís G. Bernhardsdóttir Linn, Arnór B. Vilbergsson, organisti, sr. Hreinn Hákonarsson og sr. Stefán Már Gunnlaugsson. Heimasíðan byggir á danskri fyrirmynd og var þýdd af sr. Hreini, en nokkur vinna hefur verið lögð í að staðfæra efni miðað við íslenskar aðstæður. Auk þess hefur Margrét Bóasdóttir, söngmálastjóri þjóðkirkjunnar, komið að gerð síðunnar og starfshópur um tónlist við útfarir. Þá hafa prestar, djáknar og organistar í söfnuðum Kjalarnessprófastsdæmis lesið yfir síðuna og komið með ábendingar. Ítarlegur lestur var í höndum sr. Braga Ingibergssonar, Matthildar Bjarnadóttur, sr. Sighvats Karlssonar, Olgu Bjartrar Þórðardóttir og sr. Eysteins Orra Gunnarssonar. Öllum sem lögðu hönd á plóg er þakkað vandað og traust samstarf. Verkefnið og áframhaldandi þróun þess er unnið í samstarfi við Biskupsstofu.

Það er von okkar að þetta framtak megi verða fólki til leiðsagnar og gagns á viðkvæmum tímum.