Skip to main content
All Posts By

stefan

Héraðsfundur Kjalarnessprófastsdæmis

Eftir Fréttir

Héraðsfundur Kjalarnessprófastsdæmis verður 3. apríl í Ástjarnarkirkju kl. 17:30-20:30.

Dagskrá fundarins er eftirfarandi:

  1. Helgstund
  2. Kosning fundarstjóra og fundarritara
  3. Skýrsla héraðsnefndar um starfsemi liðins árs þar sem m.a. skal getið um framkvæmd ályktana og samþykkta síðasta héraðsfundar
  4. Ársreikningar héraðssjóðs til samþykktar fyrir árið 2023
  5. Starfsáætlun héraðsnefndar þ.m.t. styrkir og fjárhagsáætlun héraðssjóðs fyrir árið 2023 til samþykktar
  6. Starfsskýrslur sókna, nefnda, héraðsprests og annarra starfsmanna prófastsdæmisins lagðar fram svo og ársreikningar sókna og kirkjugarða
  7. Mál er varða kirkjuþing, tekin til umfjöllunar og afgreiðslu
  8. Samþykktir prestastefnu og leikmannastefnu kynntar
  9. Ákvörðun um greiðslur til kjörinna héraðsnefndarmanna fyrir störf þeirra á liðnu ári
  10. Sameiginleg mál sóknarnefnda er varða rekstur og starfsmannahald
  11. Kosningar
  12. Aðrar kosningar eða tilnefningar sem heyra undir héraðsfund
    13. Önnur mál

– „Söfnuður í kviku jarðhræringa“ – sr. Elínborg Gísladóttir, sóknarprestur í Grindavíkurkirkju

– „Kynning á aðgerðaráætlun um að efla kynningu á starfi safnaðanna” – Leópold Sveinsson, framkvæmdarstjóri Garðasóknar

– „Verkefni prófastsdæmisns í stóru sem smáu“ – sr. Stefán Már Gunnlaugsson, héraðsprestur

– „Kirkjudagar 2024“ – kynning

Samkvæmt starfsreglum um héraðsfundi og héraðsnefndir nr. 965/2006 er héraðsfundur aðalfundur prófastsdæmis og fjallar um málefni sem varða starf þjóðkirkjunnar í prófastsdæminu og samræmir og markar sameiginlegt kirkjustarf í prófastsdæminu. Þar fara fram starfsskil héraðsnefndar vegna síðasta árs, svo og reikningsskil héraðssjóðs.

Á héraðsfund mæta þjónandi prestar og djáknar í prófastsdæminu, safnaðarfulltrúar og formenn sóknarnefnd eða varamenn þeirra, kirkjuþingsmenn og fulltrúar prófastsdæmisins á leikmannastefnu. Starfsmönnum sókna og prófastsdæmis svo og öllum áhugamönnum innan þjóðkirkjunnar um kirkjuleg málefni er heimilt að mæta á héraðsfundi með málfrelsi og tillögurétt. Á héraðsfundi hafa atkvæðisrétt tveir fulltrúar frá hverri sókn og starfandi prestar og djáknar.

Verið velkomin á héraðsfund Kjalarnessprófastsdæmi.

Kirkjudagur Kjalarnessprófastsdæmis

Eftir Fréttir

Kirkjudagur Kjalarnessprófastsdæmis verður haldinn í fyrsta skiptið 27. janúar í Keflavíkurkirkju. Markmið Kirkjudagsins er að efla starfsfólk og sjálfboðaliða í störfum sínum á vettvangi safnaða prófastsdæmisins með fræðslu, kynningu og samfélagi. Um leið auka samvinnu og stuðla að nýsköpun í kirkjustarfi.

Á dagskrá kirkjudagsins eru margvíslegar málstofur, fyrirlestur, messa og móttaka ásamt því að fjölmargir aðilar kynna starfsemi sína. Dagskráin er þátttakendum að kostnaðarlausu. Nánari upplýsingar um dagskrána er að finna í bæklingi um Kirkjudaginn.

Við hlökkum til að sjá þig á Kirkjudegi Kjalarnessprófastsdæmis og hægt er að skrá sig með því að smella hér.

Dagskrá


9:30    Morgunkaffi
10:00   Helgistund
10:15   Kynningarbásar
10:50   Kynning á aðgerðaráætlun um að efla kynningu á starfi safnaðanna
11:15   Málstofur A
12:00   Matur
13:00   Fyrirlestur: Jákvæð og hvetjandi samskipti
Á skemmtilegan hátt fjallað um það hvernig við getum náð því besta úr fólkinu í kringum okkur með góðum samskiptum. Fyrirlestur sem hefur slegið í gegn og hefur verið fluttur á mörgum stærstu vinnustöðum landsins. Fyrirlesari: Pálmar Ragnarsson, fyrirlesari og körfuboltaþjálfari,
14:00   Málstofur B
15:00   Málstofur C
16:00   Messa
16:45   Móttaka í safnaðarheimili Keflavíkurkirkju

Áætluð lok kirkjudagsins er um kl. 18:00.

Boðið eru upp á rútuferð frá Mosfellsbæ kl. 8:30, Garðabæ kl. 8:50 og Hafnarfjörð, kl. 9:00 og til baka þegar dagskrá lýkur.

Málstofur


Málstofurnar eru í fjórum stöðum og eru í 45-50 mín. Gert er ráð fyrir amk 10 mínútna hléi á milli málstofa.

Málstofur kl. 11:15-12:00

Nýja sálmabókin – Skyggnst inn í vinnu við nýju sálmabókina, hvað var haft var að leiðarljósi og ýmsir forvitnilegir og skemmtilegir sálmar sungnir. Umsjón: Guðný Einarsdóttir, söngmálastjóri.
Staður: Kirkjan

Að mæta fólki í erfiðleikum og áföllum – Almenn málstofa ætluð öllum með hagnýtum leiðbeiningum um hvernig við mætum fólki á erfiðum stundum í lífinu. Nærfærni, hlýja og opinn hugur. Tekin verða dæmi og horft til öryggisþátta í umönnun annarra, kunnugra sem ókunnugra. Umsjón: Gunnar Rúnar Matthíasson, sjúkrahúsprestur og Bolli Pétur Bollason, prestur.
Staður: Minni-salur.

Kirkjuhópefli – Hvernig er hægt að nota kirkjuhúsið sem stað fyrir hópefli. Æfingar fyrir fermingarfræðslu og börn jafnt sem fullorðna. Markmiðið er að vinna saman, að tengjast kirkjunni og að setja sig í spor annara. Umsjón: Laufey Brá Jónsdóttir, leikkona og prestur.
Staður: Stærri-salur.

Samvinna og sameiginlegur skilningur sóknarnefndar – Hvernig hægt er að efla teymisvinnu í sóknarnefndum sem byggir á sameiginlegum skilningi á nefndarstarfinu og hlutverki sóknarnefndarfólks. Fjallað verður um hvernig teymi og hópar geta lært saman til að ná auknum árangri og sameiginlegum ávinningi. Umsjón: Dr. Eyþór Ívar Jónsson, forseti Akademias.
Staður: Kennslustofa

Málstofur kl. 14:00-14:45

Nýjir íslenskir sálmar og raddsetning – Við kynnumst nýjum sálmum eftir íslenska texta- og lagahöfunda og lærum fallegar og ferskar raddsetningar við þá. Umsjón: Guðný Einarsdóttir, söngmálastjóri.
Staður: Kirkjan

Sálgæsla barna og unglinga – Heilbrigð nærvera, hlýja og örugg mörk. Fjallað verður stuttlega um hlutverk leiðbeinenda/leiðtoga, fyrirmyndir, aðdáun og hrifningu í hughrifum unglinga á tímaskeiði mótunar þar sem „að heita lífið sjálft“ getur legið undir. Umsjón: Gunnar Rúnar Matthíasson, sjúkrahúsprestur, og Aldís Rut Gísldóttir, prestur.
Staður: Minni-salur.

Látum texta lifna við – Hvernig förum við með texta og kenndar verða æfingar og aðferðir sem fá textann til að lifna við í flutningi hvers og eins. Meðal annars verður farið í það  hvernig við brjótum upp texta og hvernig við notum rödd og líkamsbeitingu svo að textinn berist til fólksins. Umsjón: Laufey Brá Jónsdóttir, leikkona og prestur.
Staður Stærri-salur.

Kirkjugarðar eru fyrir alla – Fjallað almennt um kirkjugarða, tekjur kirkjugarða, hlutverk Kirkjugarðasjóðs og umhirðu og grafartöku. Umsjón Smára Sigurðssonar, formanns Kirkjugarðsambands Íslands, og Guðmundur Rafns Sigurðsson, framkvæmdastjóra kirkjugarðaráðs. Staður: Kennslustofa. 

Málstofur kl. 15:00-15:45

Syngjum saman – Við undirbúum messu kirkjudagsins, æfum sálmana og lærum nýjar leiðir til að efla almennan safnaðarsöng. Umsjón: Guðný Einarsdóttir, söngmálastjóri.
Staður: Kirkjan

Verkefni sorgarinnar – Samfylgd á tímum óvissu og til burða. Farið verður stuttlega yfir verkefni sorgarinnar og nokkra lykilþætti skilnings á sorginni og veruleikum syrgjenda.  Umsjón: Gunnar Rúnar Matthíasson, sjúkrahúsprestur, Bolli Pétur Bollason, prestur, og Aldís Rut Gísldóttir, prestur.
Staður: Kennslustofa.

Markaðssókn í kirkjustarfi – fjárfesting eða sóun? – Fjallað er um mögulegar leiðir í kynningarmálum kirkjunnar og sýnd dæmi um hvernig samræma má kynningu og auglýsingar til að ná til almennings á árangursríkan hátt. Umsjón: Leópold Sveinsson, framkvæmdarstjóri Garðasóknar og f.v. ráðgjafi á markaðs- og auglýsingastofum.
Staður: Minni salur.

Kynningarbásar


Akademías er vettvangur fyrir menntun og þjálfun framtíðarinnar og vinnur með einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum til þess að efla þekkingu, hugvit og færni með það að markmiði að skapa verðmæti. Kjalarnessprófastsdæmi hefur átt í samstarfi við Akademías um nokkurt skeið m.a. námskeið fyrir sóknarnefndir og um nýsköpun.

Hjálparstarf kirkjunnar starfar að þróunarsamvinna og mannúðar­aðstoð á alþjóðavettvangi, aðstoð við fólk í félagslegri neyð á Íslandi, fjáröflun og fræðsla um starfið, gildi þróunarsamvinnu og mannúðar- og mannréttindamál.

KFUM og KFUK er kristileg æskulýðshreyfing sem hefur það að mark­miði að stuðla að heilbrigði einstaklingsins til líkama sálar og anda og stendur fyrir faglegu barna- og æskulýðsstarfi. Félagið starfrækir fimm sumarbúðir og um 30 æskulýðsdeildir víðs vegar um landið, auk þess að standa fyrir leiðtogaþjálfun og fjölbreyttum viðburðum allt árið um kring

Kyrrðarbænasamtökin á Íslandi stuðla að útbreiðslu Kyrrðarbænar og annarra íhugunar- og bænaaðferða úr kristinni hugleiðslu­hefð ásamt því að veita þeim sem þær ástunda stuðning með bænahópum í kirkjum og á netinu, kyrrðardögum, kennsluefni, námskeiðum, fyrirlestrum o.fl.  

Svæðisstjóri æskulýðsmála miðlar og vinnur að aðgerðaráætlunum út frá Fræðslustefnu Þjóðkirkjunnar fyrir sóknirnar í prófastsdæmunum á höfuðborgarsvæðinu m.a. með styðjandi ráðgjöf – hvað varðar skipulag í barna- og æskulýðsstarfi og að standa að viðburðum í samstarfi við sambönd og hreyfingar, sem einbeita sér að fræðslu og uppbyggingu fyrir þjóðkirkjuna.

Vinavoðir er hópur sem hittist og prjónar/heklar bænasjöl og trefla sem gefin eru áfram sem vinarvottur og hlýjar blessunaróskir til þeirra sem þurfa á kærleika og hlýju að halda í líf sitt. Einnig gerir hópurinn fatnað sem gefin er til Hjálparstarfs kirkjunnar og á aðra staði sem þörf er.

Þjónustumiðstöð Þjóðkirkjunnar Hlutverk fræðslusviðs er að móta stefnu í fræðslumálum Þjóðkirkjunnar. Tilgangurinn er að styðja söfnuði í því að boða kristna trú og vernda og viðhalda almennri þekkingu á henni. Unnið er samkvæmt fræðslustefnu kirkjunnar en þar er gengið út frá uppbyggilegum og andlega nærandi þáttum kristinnar trúar. Áhersla er lögð á gerð fjölbreytilegs og nútímalegs fræðsluefnis og námskeiða sem nýta má í kirkjustarfi annars vegar og úti í þjóðfélaginu hins vegar.

ÆSKÞ – Æskulýðssamband þjóðkirkjunnar eru frjáls félagasamtök og starfa á landsvísu innan Þjóðkirkjunnar. Meðal helstu verkefna sambandsins er Landsmóti æskulýðsfélaga sem er haldið ár hvert sem um 300-700 ungmenni taka þátt. Einnig er sambandið aðili að European Fellowship of Christian Youth.

ÆSKH – Æskulýðsamband kirkjunnar á höfuðborgarsvæðinu var stofnað 19. október, 2023. Markmið sambandsins er að efla æskulýðsstarf í Kjós, á Kjalarnesi, í Mosfellsbæ, Reykjavík, Seltjarnarnesi, Kópavogi, Garðabæ, Hafnarfirði og á Suðurnesjum. Sambandið er í samstarfi við svæðisstjóra æskulýðsmála og stendur fyrir margvíslegum námskeiðum, mótum og viðburðum fyrir börn og unglinga.

Messa á kirkjudeginum


Þema messunar er gleði, hvatning og uppbyggilegt samfélag. Almennur safnaðarsöngur verður áberandi og við munum syngja saman nýja sálma við allskonar undirspil. Fjölbreytt þátttaka sem flestra verður í flutningi bæna, ritningarlesturs, prédikun og öðrum liðum messunar. Í altarisgöngunni verður lögð áhersla á samfélag vináttu og kærleika. Að lokinni messu verður móttaka í safnaðarheimili Keflavíkurkirkju þar sem boðið verður upp á léttar veitingar og við munum eiga saman notalega stund.

Verið velkomin á Kirkjudag Kjalarnessprófastsdæmis 2024

„Vil ég mitt hjartað vaggan sé“ – Jóladagatalið 2023

Eftir Fréttir

Kjalarnessprófastsdæmi í samstarfi við Þjóðkirkjunar stendur nú í fjórða skiptið fyrir jóladagatali. Yfirskrift dagatalsins í ár er: „Vil ég mitt hjartað vaggna sé“ og er sótt í sálm nr. 30 eftir Einar Sigurðsson frá Heydölum, sem er elsti íslenski jólasálmurinn í Sálmabókinni.

Fyrir hvern dag desember fram að jólum opnum við nýjan glugga með uppörvandi myndbandi þar sem fólk með margskonar bakgrunn úr starfi kirkjunnar fjallar um boðskap og innihald aðventunar. Myndböndin eru tekin upp í kirkjum á Suðurnesjum, Hafnarfirði, Garðabæ, Álftanes og Kjós, einnig á Suðurlandi og Norðvesturlandi. Jóladagatalið má finna hér Facebókasíðu prófastsdæmisins.

Í fyrsta myndbandinu fjallar sr. Elínborg Gísladóttir, sóknarprestur í Grindavíkurkirkju, um þá óvenjulega stöðu sem margir Grindvíkingar eru núna í að eiga ekki kost á að vera heima um jól og aðventu og hvar finnum við þá frið og vöggu Jesúbarnsins.

Markmiðið með jóladagatalinu er að minna á boðskap aðventunnar sem er tími vonar og eftirvætingar þegar við íhugum hvað gefur lífinu gildi og tilgang og sýna kirkjurnar okkar í jóla- og aðventubúningi.

Njótum aðventunnar.

 

Kirkjulistavika

Eftir Fréttir

Dagana 29. okt – 5. nóv. fer fram kirkjulistavika í söfnuðum prófastsdæmisins. Fjölbreyttir viðburðir; leiksýning, tónleikar, málverkasýning, listasmiðjur, orgelbíó og margt fleira. Aðgangur ókeypis og verið öll hjartanlega velkomin.  Smellið á viðburði hér fyrir neðan til að sjá nánari upplýsingar …

Current Month

Leiðarþing

Eftir Fréttir

Leiðarþing Kjalarnessprófastsdæmis verður miðvikudaginn 25. október, kl. 17:30 í Hásölum, safnaðarheimili Hafnarfjarðarkirkju.

Leiðarþing er einskonar auka héraðsfundur prófastsdæmisins og er haldinn í aðdraganda kirkjuþings á hverju hausti. Hér má finna málaskrá kirkjuþings 2023-2024 sem verður til kynningar og umræðu á fundinum.

Öllum þjónandi prestum, djáknum, formönnum sóknarnefnda og safnaðarfulltrúum ber að sækja leiðarþingið. Organistar og  starfsfólk safnaðanna hefur rétt til fundarsetu og er fundurinn jafnframt opin öllu áhugafólki um kirkjulegt starf.

Verið velkomin á leiðarþing 2023 og neðangreint er dagskrá leiðarþingsins.

Dagskrá

17:30 Helgistund
17:45 Fundarstörf hefjast
• Kynning á úttekt á sameiningu prestakalla
• Kirkjuþingsfulltrúar greina frá helstu málum kirkjuþings
• Önnur mál
19:30 Kvöldverður
20:00 Fundarslit

Trú, kirkja og list – kirkjulistavika

Eftir Fréttir

Kirkjulistavika í söfnuðum prófastsdæmisins fer fram 29. október  – 5. nóvember. Þema vikunnar er sótt í Sl. 8:2: „Þú breiðir ljóma þinn yfir.“

Kirkjulistavikan fer fram með þeim hætti að samstarfssvæðin taka sig saman og standa fyrir viðburðum, sýningum og tónleikum alla vikuna.  Einnig verður listum og menningu gerð góð skil í guðsþjónustum við upphaf vikunnar þann 28. október.  

Þema vikunnar er sótt í Sálm 8:2 „Þú breiðir ljóma þinn yfir himininn“ sem fjallar um Guð sem breiðir út ljóma sinn með því að skapa og gefa líf og þrá mannsins að næra og blómga fagurt mannlíf. Það tengist jafnframt allra heilagra messu sem er lokadagur menningarviku Kjalarnessprófastsdæmis. Dagur sem er helgaður minning látinna ástvina, sem eru eins og ljós á vegferð okkar í gegnum lífið og til vitnisburðar um kærleika og ljóma Guðs. Markmið vikunnar er að minna á Guðs góðu sköpun sem birtir ljóma Guðs og minna á mennigararf kirkjunnar. Tónlist, kórastarf, myndlist og margvíslegt annað lista- og menningarstarf hefur verið áberandi í kirkjunni um aldir. Tilgangurinn er að styðja við og efla tengsl kirkju og listar með fjölbreyttum hætti.

Starfshópur er starfandi sem heldur utan um undirbúninginn, en í honum eiga sæti Jóhann Baldvinsson, Arnór B. Vilbergsson, sr. Arna Grétarsdóttir og Soffía Sæmundsdóttir. Þau eru einnig reiðubúinn að aðstoða söfnuði með að setja saman dagskrá og finna viðburði.

 

Sumarmessur

Eftir Fréttir

Nú yfir sumarið taka söfnuðir prófastsdæmisins höndum saman og standa fyrir fjölbreyttu helgihaldi yfir sumartímann á Suðurnesjum, í Hafnarfirði, Garðabæ og Álftanesi og Mosfellsbæ, Kjós og Kjalarnesi. Kærkomið íslenskt sumar ber með sér léttari og bjartari lund sem skilar sér í helgihaldinu og samfélaginu eins og sjá má í sameiginlegri dagskrá kirknana í prófastsdæminu yfir sumarið.

Sumarmessur á Suðurnesjum

Um árabil hafa kirkjurnar á Suðurnesjum átt í samstarfi um helgihaldið yfir sumartímann og messað til skiptis í kirkjunum í Grindavík, Reykjanesbæ, Vogum, Höfnum, Garðinum og Sandgerði. Um er að ræða kvöldmessur sem hefjast kl. 20:00 og þar ræður fjölbreytnin ríkjum og boðið m.a. upp á göngu-, plokk-,  kósýmessur og messumeistarann. Nánari upplýsingar um Sumarmessur á Suðurnesjum.

Sumarmessur í Garðakirkju

Í Garðakirkju skipta prestar, djáknar, organistar og starfsfólk Hafnarfjarðar, Vídalíns-, Víðistaða-, Bessastaða- og Ástjarnarkirkju auk Fríkirkjunnar í Hafnarfirði með sér þjónustunni við messu hvern sunnuag yfir sumarið. Á eftir er boðið upp á kaffi og notalegt samfélag í hlöðinni á burstarbænum Króki, þar sem ýmislegt verður á boðstólunum. Streymt er frá messunum á Facebókarsíðunni Sumarmessur í Garðakirkju.

Sumarmessur í Mosfellsbæ, Kjalarnesi og Kjós

Nú í sumar hófukirkjurnar í Mosfellsbæ, Kjalarnesi og Kjós vinna saman með sameiginlegum sumarmessur.  Þar er íslenska sveitakirkjan í forgrunni og boðið upp á göngur og kvöldmessur í bland við annað. Á Facebókarsíðu Sumarmessur í Mosfellsbæ, Kjalarnesi og Kjós er að finna upplýsingar um helgihaldið..

Héraðsfundur Kjalarnessprófastsdæmis

Eftir Fréttir

Héraðsfundur Kjalarnessprófastsdæmis verður fimmtudaginn 16. mars í Grindavíkurkirkju og hefst með helgistund kl. 17:30.

Öllum þjónandi prestum, djáknum, formönnum sóknarnefnda og safnaðarfulltrúum, einnig kirkjuþingsmönnum prófastsdæmisins og fulltrúum prófastsdæmisins á leikmannastefnu ber að sækja héraðsfund. Annað starfsfólk safnaðanna á rétt til fundarsetu með málfrelsi og tillögurétt og fundurinn er jafnframt opin öllu áhugafólki um kirkjulegt starf.

Dagskrá fundarins er eftirfarandi:

  • Helgistund
  • Fundarsetning – kosning fundarstjóra og ritara
  • Yfirlitsræða prófasts: skýrsla héraðsnefndar
  • Ársreikningar héraðssjóðs til samþykktar
  • Starfsáætlun héraðsnefndar lögð fram til samþykktar
  • Starfsskýrslur
    • héraðsprests
    • tónlistarnefndar
    • sókna
    • ársreikningar sókna og kirkjugarða
  • Mál er varða kirkjuþing
  • Samþykktir prestastefnu og leikmannastefnu kynntar
  • Ákvörðun um greiðslur til kjörinna héraðsnefndarmanna
  • Sameiginleg mál sóknarnefnda er varða rekstur og starfsmannahald
  • Kosningar
  • Aðrar kosningar
  • Önnur mál
    • Umsögn um tillögu að sameiningu Njarðvíkur- og Ytri-Njarðvíkursókna
    • Margrét Bóasdóttir fjallar um „Sviðsljósið og bak við tjöldin“ – Ný sálmabók og sálmamaraþon

Fundurinn er samkvæmt starfsreglum um héraðsfundi og héraðsnefndir nr. 965/2006.

Um 150 manna kór syngur á kórahátíð

Eftir Fréttir

Laugardaginn 11. febrúar, kl. 16:00 verður kórahátíð Kjalarnessprófastsdæmis í Vídalínskirkju í Garðabæ. Yfir 150 kórfélagar frá öllum kórum safnaða prófastsdæmisins taka þátt og boðið verður upp á fjölbreytta efnisskrá. Aðgangur ókeypis og verum öll hjartanlega velkomin. Nánar

„Slá þú hjartans hörpu strengi“

Eftir Fréttir

Á aðventunni og fram að jólum munu birtast uppörvandi  myndskeið þar sem fólk með margskonar bakgrunn úr starfi kirkjunnar fjallar um þýðingu og boðskap aðventunar. Yfirskrift dagatalsins í ár er „Slá þú hjartans hörpu strengi“ og er sótt í sálm nr. 3 eftir Valdimar Briem.  Orðið aðventa er úr latínu og merkir koman eða sá sem kemur og vísar til undirbúningstímans fyrir jól þegar við undirbúum komu Jesú Krists.

Jóladagatal er samstarfsverkefni prófastdæmisins, Þjóðkirkjunar og einnig tekur Suðurlandsprófastsdæmis þátt í dagatalinu að þessu sinni. Þetta er þriðja skiptið sem prófastsdæmið stendur að gerð jóladagatalsins.. Myndskeiðin eru frá kirkjum á Suðurnesjum, Hafnarfirði, Álftanesi, Garðabæ, Mosfellsbæ, Kjalarnesi og Suðurlandi. Markmiðið með jóladagatalinu er að minna á boðskap aðventunnar sem er tími vonar og eftirvæntingar þegar við íhugum og skoðum hvað gefur lífinu gildi og tilgang. Einnig að vekja athygli á margvíslegum mannauði kirkjunnar, sjálfboðaliðum, starfsfólki og þátttakendum í kirkjustarfinu.

Hægt er að fylgjast með jóladagatalinu hér á  Facebókasíðu prófastsdæmisins.

Njótum aðventunnar.