Skip to main content

Nýtt útialtari vígt við Esjuberg

Eftir júní 24, 2021júní 29th, 2021Fréttir

Sunnudaginn   20. júní, vígði Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, keltneskt útialtari á Esjubergi á Kjalarnesi. Það er reist til að minnast fyrstu kirkjunnar sem um er getið í íslenskum ritheimildum, Landnámubók og Kjalnesingasögu, og landnámsmaðurinn, Örlygur Hrappsson, mun hafa reist á Esjubergi um árið 900.

Vígslan fór fram í björtu og sólríku veðri. Auk biskups stýrðu vígsluathöfninni, sr. Hans Guðberg Alfreðsson, prófastur Kjalarnessprófastsdæmis, og sr. Arna Grétarsdóttir, sóknarprestur Brautarholtspresakalls. Sr. Ragnheiður Jónsdóttir, sóknarprestur Mofellsprestakalls, og sr. Gunnþór Þ. Ingason, fyrrverandi prestur þjóðmenningar, tóku einnig virkan þátt í athöfninni. Fjöldi manns fylgdist með vígslunni þar á meðal fulltrúar ýmissa kristinna trúfélaga, enda mun útialtarið á Esjubergi verða samkirkjulegur helgidómur og helgistaður.

Sögufélagið Steini á Kjalarnesi hefur staðið að gerð og smíði útialtarisins samkvæmt frumteikningu sr. Gunnþórs Þ. Ingasonar frá 2011. Sigurbjörg Ósk Haraldsdóttir gerði fagteikningar. Bygging útialtarisins hófst  með all nokkrum undanfara, þegar biskup blessaði byggingarsvæðið og tók fyrstu skóflustunguna að því 8. maí 2016. En  þar á eftir tóku þáverandi prófastur Kjalarnessprófastdæmis, formaður Sögufélagsins Steina, formaður sóknarnefndar Brautarholtssóknar og fermingarbarn, sem fermst hafði um vorið í Brautarholtskirkju, hver sína skóflustungu, frá öllum höfuðáttum.

Við vígsluna flutti séra Gunnþór, frumsamið ljóð með fáeinum inngangsorðum og nefndi það: Keltneskt útialtari á Esjubergi.