Skip to main content

Útskrift og hátíðarsamvera í Víðistaðakirkju

Eftir mars 21, 2013Æskulýðsstarf

Farskóla leiðtogaefnanna 2012-2013 var slitið við gleðilega athöfn í Víðistaðakirkju í gær. 38 unglingar hafa stundað nám í skólanum í vetur undir stjórn Sigríðar Rúnar og Guðjóns. Útskrift og hátíðarsamvera Farskóla leiðtogaefna í VíðistaðakirkjuVerkefnið er samstarf Æskulýðsnefnar Kjalarnessprófastsdæmis, ÆSKR, Biskupsstofu og ÆSKÞ og hefur unnið sér sess í leiðtogafræðslu þjóðkirkjunnar. Námskeiðið er miðað við áhugasama unglinga á aldrinum 15-17 ára sem aðstoða í starfi eða hafa hug á að starfa með börnum og/eða unglingum innan kirkjunnar í Reykjavíkur- og Kjalarnessprófastsdæmum.

Á samverunni í gær sáu unglingar um prédikun, helgileik, ritningarlestra, undirspil, söng, auk þess að aðstoða við altarisgöngu og baka með kirkjukaffinu. Sr. Kristín Þórunn Tómasdóttir, héraðsprestur í Kjalarnessprófastsdæmi, þjónaði fyrir altari og leiddi stundina. Foreldrar og aðdáendur Farskólans fjölmenntu í Víðistaðakirkju og áttu góða stund með duglegum ungleiðtogum kirkjunnar.

Markmið með farskóla leiðtogaefna er að styrkja faglegt starf með hæfum og góðum leiðtogum í barna- og unglingastarfi kirkjunnar. Viðfangsefni námskeiðsins er m.a. fræðsla um kristna trú, kirkjuna, starf hennar og fleira.  Um leið og áhersla er lögð á að sinna hverjum þátttakanda og uppbyggingu hvers og eins er mikið lagt upp úr því að skapa gott samfélag í hópnum, meðal annars með áherslu á helgistundir.

Farskólinn er ætlaður sem stuðningur við söfnuðina í því að byggja upp leiðtoga og því er mikilvægt að samhliða farskólanum sé leiðtogaefnunum sinnt af þeim sem bera ábyrgð á æskulýðsstarfi í söfnuðinum og að þeim séu falin verkefni við hæfi í starfinu svo þau fái þjálfun í sínum heimasöfnuði samhliða námskeiðinu.

Skólastjóri Farskólans að þessu sinni er Sigríður Rún Tryggvadóttir, guðfræðingur.

Njóttu mynda frá kvöldinu!