Skip to main content

Vel heppnað söngmót í Vatnaskógi

Eftir apríl 24, 2012Æskulýðsstarf

Fimmtíu unglingar tóku þátt í söngmóti í Vatnaskógi um sl. helgi.  Mótið var samstarfsverkefni Skógarmanna KFUM og Æskulýðsnefndar Kjalarnesprófastsdæmis.  Mikil gleði og samkennd einkenndi mótið.  

Myndir frá mótinu

Þátttakendur voru einkum úr Garði og Sandgerði en einnig komu þátttakendur úr Reykjavík, Keflavík, frá Selfossi og úr Landsveit.  Sex hópsamverur voru þar sem mikið var sungið, þ.e. tvær kvöldvökur, tvær miðnæturhelgistundir við arineld, ein morgunstund með biblíulestri á laugardagsmorgni og síðan söngmessa á sunnudagsmorgninum.

Söngmessan fór fram í hátíðarsal Gamla skála en endaði á helgigöngu út í kapellu þar sem allir þáðu fararblessun undir ljúfum söng lítils sönghóps.  Lítil hljómsveit lék undir almennan söng á mótinu.  Á laugardeginum var tvívegis boðið uppá tvo tónlistarhópa þar sem í öðrum var spilað á gítar en í hinum tekinn upp söngur einstaklinga eða smærri hópa.  Þetta var afar ánægjulegt og þroskandi.  Í upptökunum voru gerðar einfaldar tilraunir með raddanir þar sem það hentaði.

Auk söngsins var aðstaðan óspart notuð s.s. bátarnir, vatnið, íþróttahúsið, heitu pottarnir og skógurinn.  Á laugardagskvöldinu var varðeldur í Skógarkirkju þar sem þjóðleg varðeldalög voru sungin við undirleik Jóns Árna Jóhannssonar gítarista.  Kyrrðin var algjör og sumarstemming þó enn sé apríl.  Mótið heppnaðist í alla staði mjög vel enda allir samstilltir í að láta allt ganga upp.

Sigurður Grétar Sigurðsson