Skip to main content
Monthly Archives

júní 2020

Steinhús fyrir munaðarlaus börn

Eftir Fréttir

Á æskulýðsdagi þjóðkirkjunnar sem var 1. mars stóðu börn og unglingar í Kjalarnessprófasastsdæmi fyrir söfnun fyrir munaðarlaus börn í Úganda í samstarfi við Æskulýðssamband kirkjunnar í Kjalarnessprófastsdæmi. Alls söfnuðust 268.702.- kr. sem hefur verið  afhent Hjálparstarfi kirkjunnar. Söfnunarféið verður notað til þess að byggja steinhús með bárujárnsþaki fyrir munaðarlaus börn í Úganda. Söfnunin hefur farði fram árlega síðastliðin fjögur ár og fólst í því að börn og unglingar í æskulýðsstarfinu standa fyrir vöfflu- og veitingasölu eftir messu á æskulýðsdaginn.

Með steinhúsi fá munaðarlaus börn í Úganda skjól fyrir næturkuldanum og rigningunni og einnig hægt að halda hreinu og hlýju. Húsið er múrað og skordýr verpa ekki í holum í veggjunum eins og í moldarkofunum. Minna verður um smit og veikindi. Af bárujárnsþakinu má safna vatni sem dugar 3-4 mánuði inn í þurrkatímann. Munaðarlausir unglingar í iðnnámi smíða gluggakarma, dyrastafi og læra múrverk af að reisa húsin. Nýtt hús gefur stolt, bjartsýni og von um að nú verði allt auðveldara og betra.

Fjölbreytt helgihald yfir sumarið

Eftir Fréttir

Nú yfir sumarið taka söfnuðir höndum saman og standa fyrir fjölbreyttu helgihaldi yfir sumartímann, m.a. á Suðurnesjum og í Hafnarfirði, Garðabæ og Álftanesi.

Kirkjurnar á Suðurnesjum í Grindavík, Reykjanesbæ, Garðinum og Sandgerði sameinast um helgihaldið yfir sumartímann og messað er til skiptis í kirkjunum. Þar ræður fjölbreytnin ríkjum og boðið m.a. upp kvöld-, pútt-, göngu- og ratleikjamessa.

Í Garðakirkju skipta prestar, djáknar, organistar og starfsfólk Hafnarfjarðar, Vídalíns-, Víðistaða-, Bessastaða- og Ástjarnarkirkju auk Fríkirkjunnar í Hafnarfirði með sér þjónustunni við messu hvern sunnuag yfir sumarið. Á eftir er boðið upp á kaffi og notalegt samfélag í hlöðinni á burstarbænum Króki.