Skip to main content
Monthly Archives

október 2014

Þrjár vísitasíur og ein vísa!

Eftir Fréttir

Í gær, þann 27. október, vísiteraði Kjalarnessprófastur, Dr. Gunnar Kristjánsson, Kálfatjarnarsókn, Ástjarnarsókn og loks Víðisstaðasókn. Var vel tekið á móti prófasti á öllum stöðum og tók hann þar út aðstöðu og fékk fregnir af stöðu ýmissa mála. Prófastur var ánægður með fundina og hafði sérstaklega orð á því hversu glaður hann væri með það góða fólk sem kæmi að umsjón kirknanna og söfnuðanna innan prófastsdæmisins. Löngum fundadegi lauk á skemmtilegri vísu sem Karl Kristenson, kirkjuhaldari í Víðisstaðakirkju flutti fyrir fundarmenn  en í henni er prófasturinn ávarpaður:

Séra Gunnar seg´eg þér
sómi að öllu sýnist hér.
Kirkjustarf af kærleik er
og kunnáttu inspírerað.
Á söfnuðinum all-vel sér
að sálarlífið batna fer.
Guðsorðið með góðu
accepterað.

Þessi kirkja all-margt á
sem einnig með gleði muna má.
Fjallræðuna finn´og sjá
festa upp á veggi.
Að hennar boðskap gestir gá
gleð´ og sælu boðskap fá.
Sýnist það vera hollast fyrir seggi

 

Nýr héraðsprestur!

Eftir Fréttir

Þau ánægjulegu tíðindi hafa nú borist að sr. Hulda Hrönn Helgadóttir hefur verið skipuð héraðsprestur í Kjalarnessprófastsdæmi og mun þar sinna afleysingum og fræðslu.

Sr. Hulda Hrönn útskrifaðist sem guðfræðingur frá Háskóla Íslands árið 1987. Hún er jafnframt með meistaragráðu í kennimannlegri guðfræði frá Edinborgarháskóla þar sem hún stundaði m.a. starfsnám við sjúkrahúsið The Royal Infirmary of Edinburgh á árunum 1995-96. Hún var vígð til prests í Hríseyjarprestakalli árið 1987 og hefur einnig gegnt mörgum öðrum trúnaðarstörfum fyrir þjóðkirkjuna .

Kjalarnessprófastur og prófastsdæmið bjóða sr. Huldu Hrönn velkomna til starfa.

Tölvupóstfang sr. Huldu er hulda.hronn.helgadottir (hjá) kirkjan.is og hægt er að ná í hana í s. 699-0359