Skip to main content
Monthly Archives

nóvember 2014

Vaxandi starf í vaxandi sókn: Vísiterað í Lágafellssókn

Eftir Fréttir

Í gær, þann 18. nóvember vísiteraði Kjalarnessprófastur, Dr. Gunnar Kristjánsson Lágafellssókn. Prófastur er vel kunnugur málefnum sóknarinnar enda deilir hann húsnæði með safnaðarheimili hennar og starfsmönnum og eru dagleg samskipti því mikil þar á milli. Ljóst er að miðað við íbúafjölda þá býr söfnuðurinn við smáar (en vissulega fallegar) kirkjur og safnaðarheimili sem er tengt hvorugri kirkjunni. Þetta hefur verið söfnuðinum áskorun en samt sem áður þá er starfið í vexti, alveg eins og byggðalagið sjálft, sem vex ár frá ári. Nefndu fundarmenn um að þau finndu fyrir miklum hlýhug og velvilja frá fólki í garð kirkjunnar í sókninni. Prófastur kom, af þessu tilefni, inn á efni sem hann hefur áður nefnt á fyrri vístasíufundum. Honum virðist að þrátt fyrir að kirkjan sem stofnun sé á tíðum með vindinn í fangið þá sæki kirkjan heima í héruðunum sífellt í sig veðrið.

Samfélagsleg miðstöð: Vísiterað í Keflavíkursókn

Eftir Fréttir

Prófastur, Dr. Gunnar Kristjánsson, vísiteraði Keflavíkursókn föstudaginn 14. nóvember. Söfnuðurinn sagði frá starfi sem hefur verið í örum vexti með skýran fókus á barnastarf, tónlist og kærleiksþjónustu.  Á 100 ára afmæli kirkjunnar, sem verður nú á komandi ári, má með sanni segja að hún sé trúaruppeldisstöð, menningarstofnun og velferðarþjónusta innan samfélagsins í Keflavíkursókn.

Á fundinum sýndi sóknarnefnd og prestar kirkjunnar prófasti hlýhug fyrir störf hans í gegnum tíðina sem hafa verið Keflavíkursöfnuði til heilla. Nefndi fólk þar styrki, fræðslufundi og fræðsluferðir erlendis sem hafi styrkt þau í störfum sínum.  Í því samhengi voru rifjaðar upp kærar minningar úr slíkum fræðsluferðum til Þýskalands undir leiðsögn Gunnars og eiginkonu hans Önnu Höskuldsdóttur. Fólk var sammála um að það hafi ekki bara verið lærdómsríkar ferðir heldur hafi þær  tengt saman fólkið innan prófastsdæmisins. Skorað var á Gunnar að halda áfram slíkum ferðum nú þegar hann lætur af störfum sem prófastur. Þökkunum og áskorununum fylgdu síðan gjafir til prófastshjónanna.

Meðfylgjandi eru myndir sem voru teknar á fundinum og við skoðun kirkjunni

Prófastur predikar í Hafnarfjarðarkirkju

Eftir Fréttir

Í dag, sunnudaginn 16. nóvember kl 11.00, predikar prófasturinn í Kjalarnessprófastsdæmi dr. Gunnar Kristjánsson í Hafnarfjarðarkirkju. Er það í tilefni af 100 ár afmæli Hafnarfjarðarkirkju. Félagar úr Barbörukórnum syngja. Organisti er Guðmundur Sigurðsson. Prestar kirkjunnar sr. Þórhildur Ólafs og sr. Jón Helgi Þórarinsson þjóna fyrir altari.

„Upp, upp“ – Prófastsdæmið og Stoppleikhópurinn

Eftir Fréttir

Kjalarnessprófastsdæmi hefur gerst aðalstyrktaraðili nýs leikrits Stoppleikhópsins um uppvaxtarsögu sr. Hallgríms Pétursson. Sýningin, sem ber titilinn „Upp, upp“,  er miðuð við ungmenni en hefur verið að hitta í mark hjá öllum þeim sem hafa farið að sjá. Söfnuðir og skólar innan prófastsdæmisins hafa fengið forskot á sæluna með að sjá verkið og nú mun leikhópurinn fara með það um landið allt. Handritshöfundur og leikstjóri er Valgeir Skagfjörð. Leikarar eru Eggert Kaaber, Katrín Þorkelsdóttir og Valgeir Skagfjörð.  Kjalarnessprófastsdæmi er ánægt með að styðja við slíkt verkefni enda er saga Hallgríms samofin svæðum innan prófastsdæmisins og á skáldið 400 ára afmæli á þessu ári.

Þeim sem hafa áhuga á að fá verkið til sýninga er bent á að hafa samband við Eggert Kaaber – eggert (hjá)centrum.is

Gagnkvæmt þakklæti: Vísiterað í Útskálaprestakalli

Eftir Fréttir

Létt var yfir fólki í Útskálaprestakalli þegar Dr. Gunnar Kristjánsson, prófastur, vísiteraði söfnuðina í gær, þann 12. nóvember. Þar hefur verið mikið um að vera á Hallgrímsári enda hóf Hallgrímur Pétursson þar prestsskap sinn á sínum tíma. Að því tilefni hefur nú verið settur fallegur minnisvarði um Hallgrím við Hvalsneskirkju, unninn af Páli Guðmundssyni. Prófastur tók út minnisvarðann um leið og hann tók út kirkjuna og var virkilega hrifinn. Á sameiginlegum fundi sóknanna þakkaði prófastur síðan öllu því góða fólki sem hefur verið að vinna fórnfúst starf, bæði í Hvalsnessókn og Útskálasókn, og sagði gaman að sjá hversu vel öllu væri sinnt. Hann benti á að sumir hefðu starfað jafn lengi og hann sjálfur sem prófastur og jafnvel lengur og að alúð þeirra sæist á allri umgengni. Fólk þáði hrósið með þökkum og þakkaði jafnframt Dr. Gunnari samstarfið undanfarin 17 ár og leysti hann út með blómum. Það var viðeigandi enda var þetta síðasta formlega vísitasía hans í  Útskálaprestakall sem prófastur.

 

Eftirvænting aðventu: Vísiterað í Grindavík

Eftir Fréttir

Í gær, þann 11. nóvember, vísiteraði Dr. Gunnar Kristjánsson, Kjalarnessprófastur, Grindavíkursókn. Vel var tekið á móti Gunnari og hófst vísitasían í kirkjugarðinum þar sem prófastur skoðaði viðbætur. Í Grindavíkurkirkju var kirkjan tekin út og síðan rætt um framkvæmdir, breytingar og safnaðarstarf. Ljóst var af öllu að málefni kirkjunnar eru í góðum höndum í Grindavík. Eftirvænting var fyrir aðventunni enda verður margt á döfinni í tengslum við kirkjuna þá. Má þar sérstaklega nefna fyrsta sunnudag í aðventu þar sem jólaljósin í kirkjugarðinum verða formlega tendruð eftir helgistund. Einnig verður mikil blys-friðarganga sem mun ganga um bæinn og enda í kirkjunni og síðan spennandi tónleikar sem nú þegar er uppselt á. Og er þó ekki allt talið.

Aðventufundur

Eftir Fréttir

Þann 12. desember næstkomandi hefur Kjalarnessprófastur boðað presta og djákna í prófastsdæminu á aðventufund. Aðventufundir eru góðir stöðufundir og mikilvægar samverustundir í upptakti að jólahátíðinni. Mun fundurinn fara fram í Hafnarborg í Hafnarfirði.

Góð þróun á afmælisári: Prófastur í Hafnarfirði

Eftir Fréttir

Dr. Gunnar Kristjánsson vísiteraði bæði Hafnarfjarðarkirkjugarð og Hafnarfjarðarkikju í gær, þann 10. nóvember. Á báðum stöðum var vel tekið á móti prófasti og mynduglega staðið að málum. Prófastur leitaði fregna um breytingar í Hafnarfjarðarkirkju og hlustaði á fyrirætlanir og sjónarmið presta, sóknarnefndarfólks og starfsmanna.  Prófastur hvatti söfnuðinn til að halda áfram á sömu braut varðandi öflugt tónlistarstarf, sækja áfram fram með samstarfi við aðrar stofnanir og hópa í Hafnarfirði og bjóða þannig upp á fjölbreytt kirkjustarf. Eftir það talaði prófastur um hversu vel söfnuðurinn væri nú búinn varðandi kirkju, safnaðarheimili og starfsfólk. Það er enda viðeigandi að Hafnarfjarðarkirkja sé að öllu leyti vel búinn, nú þegar haldið er upp á 100 ára afmælisár kirkjunnar.

Prófastur í Njarðvíkurprestakalli

Eftir Fréttir

Kjalarnessprófastur, Dr. Gunnar Kristjánsson, vísiteraði Njarðvíkurprestakall í gær, þann 6. nóvember. Í Njarðvíkurprestakalli eru einar þrjár sóknir og þannig var nóg að ræða og taka út. Vel var tekið á móti prófasti og hafði hann á orði að sóknarprestur, sr. Baldur Rafn, væri með gott fólk með sér til að sjá um málefni kirkjunnar í öllum sóknum. Ýmislegt hafði bæst við kost kirknanna, bæði með munum, framkvæmdum og viðgerðum sem var fróðlegt að heyra af og gaman að sjá. Það gerðist því skiljanlega að vísitasían drógst vel á langinn og var því orðið áliðið þegar prófastur kvaddi sóknarprest og sóknarnefndarfólk við Njarðvíkurkirkju, margs vísari um stöðu mála í Njarvíkurprestakalli.

Vísitasía í Garðasókn og þjóðkirkjuhugsjónin

Eftir Fréttir

Dr. Gunnar Kristjánsson, Kjalarnessprófastur vísiteraði Garðasókn í gær þann 5. nóvember. Vísitasían var vel heppnuð í alla staði og var Vídalínskirkja full af lífi þegar vísitasíufundur var við það að hefjast. Dr. Gunnar talaði í inngangi sínum að fundinum um eðli þjóðkirkjutrúarinnar sem sé hógvær trú, þar sem enginn greinarmunur sé gerður á stórri eða lítilli trú enda sé trú alltaf trú og réttilega  boðin velkomin í þjóðkirkjunni án aðgreiningar. Þjóðkirkjan sé því ekki sértrúarflokkur sem aðgreini sig frá öðrum og slær sér á brjóst fyrir trúarhita sinn heldur samfélag sem sé tengist þjóðfélaginu á jafningjagrundvelli. Í þjóðkirkjuhugsuninni eigi að vera að finna róttækan samstarfsvilja og öfluga samvinnusækni við aðra hópa og stofnanir samfélagsins. Dr. Gunnar benti á það að í Garðasókn væri slíkt samstarf daglegur, lifandi veruleiki og vísaði þar til nýlegs dæmis um velheppnaða Stjörnumessu í Vídalínskirkju þar sem íþróttafélagið Stjarnan, hljómsveitin  Pollapönk og Vídalínskirkja héldu saman guðsþjónustu þar sem 700 manns mættu. Á fundinum lýsti fundarfólk ánægju með starfið og starfsandann í Garðasókn. Að loknum fundi gaf Garðasókn Dr. Gunnari bók að gjöf sem þakklætisvott fyrir stuðning Kjalarnessprófastsdæmis við starfið en einnig sem virðingarvott við Dr. Gunnar sem þar var að vísitera söfnuðinn í síðasta sinn sem prófastur.