
Kirkjudagur Kjalarnessprófastsdæmis verður haldinn í annað skiptið laugardaginn 24. janúar í Keflavíkurkirkju. Markmið Kirkjudagsins er að efla starfsfólk og sjálfboðaliða í störfum sínum á vettvangi safnaða prófastsdæmisins með fræðslu, kynningu og samfélagi. Um leið auka samvinnu og stuðla að nýsköpun í kirkjustarfi.
Á dagskrá kirkjudagsins eru margvíslegar málstofur, fyrirlestur, messa og móttaka ásamt því að fjölmargir aðilar kynna starfsemi sína. Dagskráin er þátttakendum að kostnaðarlausu. Nánari upplýsingar um dagskrána er að finna í bæklingi um Kirkjudaginn.
Við hlökkum til að sjá þig á Kirkjudegi Kjalarnessprófastsdæmis og hægt er að skrá sig með því að smella hér.
Dagskrá
9:30 Morgunkaffi
10:00 Setning og helgistund
10:15 Málstofur I
11:15 Málstofur II
12:00 Hádegismatur
12:30 Kyrrðarbæn í kapellu
13:00 Málstofur III
14:00 Kynningar
14:30 Helgistund
15:00 Móttaka í safnaðarheimili Keflavíkurkirkju
Boðið eru upp á rútuferð frá Mosfellsbæ kl. 8:30, Garðabæ kl. 8:50 og Hafnarfjörð, kl. 9:00 og til baka þegar dagskrá lýkur.
Málstofur
Málstofurnar eru í 45-50 mín og á fjórum stöðum: kirkju, kennslustofu, minni sal og stærri sal.
I Málstofur kl. 10:15
Raddþjálfun með Laufeyju
Hvernig komum við í veg fyrir að stífna upp og þreytast í söng? Hvernig náum við betri samhljóm í kórnum? Laufey Geirsdóttir söngkennari kemur með æfingar og góð ráð fyrir kórsöngvara.
Staður: kirkja
Sóknarnefnd… og hvað svo?
Sóknarnefndarstarf er mikilvægt leiðtogahlutverk í kirkjunni, en oft fylgja því óljósar væntingar og flókið samspil við starfsfólk og sjálfboðaliða. Í þessari vinnustofu verður fjallað um hlutverk og ábyrgð sóknarnefnda, og hvernig hægt er að byggja upp samstarf, traust og ávinning. Lögð er áhersla á stefnumarkandi sýn, sameiginlegan skilning og praktískar leiðbeiningar. Vinnustofan byggir á kynningu og samtali þátttakenda.
Umsjón: Dr. Eyþór Ívar Jónsson er sérfræðingur í stjórnun, stefnumótun og stjórnarháttum.
Staður: kennslustofa
Af hverju messuþjónar?
Til umfjöllunar er hvernig messuþjónusta styrkir flæði messunnar, móttöku kirkjugesta og styður við þátttöku safnaðarins. Rætt verður hvernig markviss messuþjónusta getur orðið einföld leið til að efla helgihald og skapa hlýlegt messuumhverfi. Einnig ræddar leiðir hvernig við getum laðað fleiri til þátttöku og elft þau sem taka þátt með leiðsögn, samfélagi og skýrum ramma.
Umsjón: Sara Dögg Eiríksdóttir, kynningar- og fræðslufulltrúi Keflavíkurkirkju.
Staður: minni salur
Kirkjuhópefli
Kenndar verða aðferðir til að efla hópa, einstaklinga og styrkja samvinnu. Unnið verður með æfingar og verkefni sem hægt er að nota í fermingarfræðslu og öðru starfi með börnum og unglingum sem styðja við jákvæða uppbyggingu hópsins.
Umsjón: Laufey Brá Jónsdóttir, leikkona og prestur.
Staður: stærri salur
II Málstofur kl. 11:15
Skapandi söngsmiðja
Fjölbreytt tónlist og aðferðir til flutnings. Kynnt fjölbreytt efni og skapandi leiðir til flutnings.
Umsjón: Arngerður María Árnadóttir, organisti, kórstjóri og deildarstjóri endurmenntunar við Tónskóla þjóðkirkjunnar
Staður: kirkja
Vinnustofa: Sjálfboðaliðastarf með tilgangi
Sjálfboðaliðastarf er burðarstoð kirkjunnar og samfélagsins, en til að það sé sjálfbært þarf skýrleika, raunhæfar væntingar og gagnkvæma virðingu. Í þessari vinnustofu verður fjallað um hlutverk sjálfboðaliða, hvernig ábyrgð og frelsi fara saman og hvað stuðlar að því að fólk haldist virkt og upplifi tilgang í starfi sínu. Vinnustofan byggir á kynningu og samtali þátttakenda.
Umsjón: Dr. Eyþór Ívar Jónsson er sérfræðingur í stjórnun, stefnumótun og stjórnarháttum.
Staður: kennslustofa
Staða kirkjugarðanna í dag, horft til framtíðar
Kreppt hefur að rekstri kirkjugarða jafnt og þétt frá hruni árið 2008 en enn þarf að sinna sömu verkefnunum. Hvernig gengur að fjármagna þessi verkefni og hvað getum við gert til að létta róðurinn? Fjallað verður um allt frá daglegum störfum í kirkjugörðum yfir í að horfa á stóru myndina og hvernig gengið hefur að glíma við stjórnsýsluna sem leggur línurnar í málaflokknum.
Umsjón: Ágústa Erlingsdóttir, framkvæmdastjóri kirkjugarðaráðs.
Staður: minni salur
Að tala um sorg við börn?
Viðbrögð barna og unglinga við missi og áföllum og hvernig starfsfólk kirkjunnar getur rætt um sorg og áföll í starfi með börnum og unglingum.
Umsjón: sr. Matthildur Bjarnadóttir, prestur og verkefnastjóri Arnarins.
Staður: stærri salur
III Málstofur kl. 13:00
Nýtt og nýlegt efni fyrir kóra
Helgistund kirkjudagsins undirbúin. Kenndir sálmar og sálmaútsetningar úr ýmsum áttum sem við æfum saman fyrir helgistundina.
Umsjón: Arngerður María Árnadóttir, organisti, kórstjóri og deildarstjóri endurmenntunar við Tónskóla þjóðkirkjunnar
Staður: kirkja
Hvers vegna þjónandi forysta?
Hvað einkennir þjónandi forystu og hver er ávinningurinn fyrir sóknir að innleiða þjónandi forystu i starfi sínu? Gripið verður niður í ævisögur sr. Braga Friðrikssonar og hr. Karls Sigurbjörnssonar í ljósi hugmyndarinnar um þjónandi forystu. Báðir höfðu þeir víðtæk áhrif á kirkju og samfélag, voru einlægir trúmenn og ríkir af náðargáfum.
Umsjón: dr. Skúli Sigurður Ólafsson, prestur, doktor og stundakennari í þjónandi forystu við háskólann á Bifröst.
Staður: kennslustofa
Nýtt merki, ný sýn – ný tækifæri fyrir sóknir
Nýlega setti Þjóðkirkjan í gang kynningarátak þar sem m.a. er lögð er áhersla á gildi. Einnig var sett í loftið ný vefsíða og nýtt merki kynnt. Hefur þessi breyting áhrif á sóknirnar sjálfar? Geta þær nýtt sér þessa breytingu til að efla sitt kynningarstarf? Pipar/Biskupsstofu segir frá þeim hugmyndum sem að baki átaksins liggur. Í kjölfarið verður velt upp leiðum sem sóknir/kirkjur gætu mögulega nýtt sér í sínu kynningarstarfi.
Umsjón: Leópold Sveinsson, framkvæmdarstjóri Garðasóknar og f.v. markaðsráðgjafi
Staður: minni salur
Kirkja fyrir öll börn sem styður, hlustar og byggir brýr
Hvernig getur kirkjan tekið á móti öllum börnum með ólíkar þarfir, líðan og bakgrunn – og aðlagað fermingarstarf, barna- og unglingastarf og helgihald að þeim? Lögð er áhersla á hlustun, sveigjanleika og skýran ramma sem hjálpar okkur að byggja brýr milli barna, fjölskyldna og kirkjulífs – og skapa samfélag þar sem öll börn eiga sinn stað.
Umsjón; Elín Elísabet Jóhannsdóttir, fræðslustjóri Biskupsstofu.
Staður: stærri salur
Kynningarbásar
Hið íslenska biblíufélag er elsta starfandi félag á Íslandi og markmið þess er að vinna að útgáfu, útbreiðslu og notkun Biblíunnar.
Hjálparstarf kirkjunnar starfar að þróunarsamvinna og mannúðaraðstoð á alþjóðavettvangi, aðstoð við fólk í félagslegri neyð á Íslandi, fjáröflun og fræðsla um starfið, gildi þróunarsamvinnu og mannúðar- og mannréttindamál.
Keflavíkurkirkja – Fólk, fjölbreytni og fjölhæfni prýðir Keflavíkurkirkju. Sífelld sköpun á sér stað í safnaðarstarfi. Himnavoðir, hópur kvenna sem vinnur að margvíslegri handavinnu, hafa m.a. handgert bænaklúta fyrir skírnarbörn og hekla bókamerkiskrossa fyrir fermingarbörn. Kærleiksumgjörð um messuþjóna er mikilvæg og í upphafi vetrar var gerð handbók messuþjónum til stuðnings í starfi og til fróðleiks. Afrakstur alls þessa mun Keflavíkurkirkja leggja á borð á Kirkjudegi Kjalarnessprófastdæmis.
Kirkjumiðstöðin Löngumýri
Kyrrðarbænasamtökin á Íslandi voru stofnuð áðrið 2013 og móðursamtökin heita Contemplative Outreach. Hlutverk samtakanna er að stuðla að útbreiðslu Kyrrðarbænar og annarra íhugunar- og bænaaðferða úr kristinni hugleiðsluhefð ásamt því að veita þeim sem þær ástunda stuðning með bænahópum í kirkjum og á netinu, kyrrðardögum, kennsluefni, námskeiðum, fyrirlestrum o.fl. Þá verður boðið upp á kyrrðarbæn í kapellunni kl. 12:30-13:00.
Njarðvíkursókn býður upp á fjölbreytilegt safnaðarstarf fyrir alla aldurshópa. Samverur barna og unglinga og fyrir foreldra, opið hús með helgistund og léttum hádegisverð. Vinavoðir eru hópur kvenna sem prjóna og hekla fyrir margvíslega handavinnu í þágu samfélagsins. Messuþjónastarf er í uppbyggingu auk öflugs kórs Njarðvíkursóknar sem verður kynnt á Kirkjudegi Kjalarnessprófastsdæmis.
Svæðisstjóri æskulýðsmála miðlar og vinnur að aðgerðaráætlunum út frá Fræðslustefnu Þjóðkirkjunnar fyrir sóknirnar í prófastsdæmunum á höfuðborgarsvæðinu m.a. með styðjandi ráðgjöf – hvað varðar skipulag í barna- og æskulýðsstarfi og að standa að viðburðum í samstarfi við sambönd og hreyfingar, sem einbeita sér að fræðslu og uppbyggingu fyrir þjóðkirkjuna.
Vinir í bata er hópur fólks sem tileinka sér Tólf sporin sem lífstíl sem bíður upp á sporafundi í ýmsum kirkjum. 12 sporin andlegt ferðalag er fyrir alla. Ekki er gengið út frá því að fólk eigi við nein skilgreind vandamál að stríða, fíkn eða slíkt, heldur er um að ræða tækifæri til sjálfsskoðunar og almenna uppbyggingu til að geta betur tekist á við áskoranir lífsins.
Þjónustumiðstöð Þjóðkirkjunnar – Hlutverk fræðslusviðs er að móta stefnu í fræðslumálum Þjóðkirkjunnar. Tilgangurinn er að styðja söfnuði í því að boða kristna trú og vernda og viðhalda almennri þekkingu á henni. Unnið er samkvæmt fræðslustefnu kirkjunnar en þar er gengið út frá uppbyggilegum og andlega nærandi þáttum kristinnar trúar. Áhersla er lögð á gerð fjölbreytilegs og nútímalegs fræðsluefnis og námskeiða sem nýta má í kirkjustarfi annars vegar og úti í þjóðfélaginu hins vegar.
Kynningar
Í stærri salnum kl. 14:00 verður kynning á nýrri heimasíðu og markaðsátaki kirkjunnar starfi og þjónustu Kjalarnessprófastsdæmis.
Helgistund og móttaka
Helgistundin hefst kl. 14:30 í kirkjunni og þemað er gleði, hvatning og uppbyggilegt samfélag. Almennur safnaðarsöngur verður áberandi og fjölbreytt þátttaka sem flestra verður í forgrunni. Að lokinni messu verður móttaka kl. 15:00 í safnaðarheimili Keflavíkurkirkju þar sem boðið verður upp á léttar veitingar og við munum eiga saman notalega stund.
Verið velkomin á Kirkjudag Kjalarnessprófastsdæmis 2026

Nýlegar athugasemdir