Skip to main content
All Posts By

a8

Eftirvænting aðventu: Vísiterað í Grindavík

Eftir Fréttir

Í gær, þann 11. nóvember, vísiteraði Dr. Gunnar Kristjánsson, Kjalarnessprófastur, Grindavíkursókn. Vel var tekið á móti Gunnari og hófst vísitasían í kirkjugarðinum þar sem prófastur skoðaði viðbætur. Í Grindavíkurkirkju var kirkjan tekin út og síðan rætt um framkvæmdir, breytingar og safnaðarstarf. Ljóst var af öllu að málefni kirkjunnar eru í góðum höndum í Grindavík. Eftirvænting var fyrir aðventunni enda verður margt á döfinni í tengslum við kirkjuna þá. Má þar sérstaklega nefna fyrsta sunnudag í aðventu þar sem jólaljósin í kirkjugarðinum verða formlega tendruð eftir helgistund. Einnig verður mikil blys-friðarganga sem mun ganga um bæinn og enda í kirkjunni og síðan spennandi tónleikar sem nú þegar er uppselt á. Og er þó ekki allt talið.

Aðventufundur

Eftir Fréttir

Þann 12. desember næstkomandi hefur Kjalarnessprófastur boðað presta og djákna í prófastsdæminu á aðventufund. Aðventufundir eru góðir stöðufundir og mikilvægar samverustundir í upptakti að jólahátíðinni. Mun fundurinn fara fram í Hafnarborg í Hafnarfirði.

Góð þróun á afmælisári: Prófastur í Hafnarfirði

Eftir Fréttir

Dr. Gunnar Kristjánsson vísiteraði bæði Hafnarfjarðarkirkjugarð og Hafnarfjarðarkikju í gær, þann 10. nóvember. Á báðum stöðum var vel tekið á móti prófasti og mynduglega staðið að málum. Prófastur leitaði fregna um breytingar í Hafnarfjarðarkirkju og hlustaði á fyrirætlanir og sjónarmið presta, sóknarnefndarfólks og starfsmanna.  Prófastur hvatti söfnuðinn til að halda áfram á sömu braut varðandi öflugt tónlistarstarf, sækja áfram fram með samstarfi við aðrar stofnanir og hópa í Hafnarfirði og bjóða þannig upp á fjölbreytt kirkjustarf. Eftir það talaði prófastur um hversu vel söfnuðurinn væri nú búinn varðandi kirkju, safnaðarheimili og starfsfólk. Það er enda viðeigandi að Hafnarfjarðarkirkja sé að öllu leyti vel búinn, nú þegar haldið er upp á 100 ára afmælisár kirkjunnar.

Prófastur í Njarðvíkurprestakalli

Eftir Fréttir

Kjalarnessprófastur, Dr. Gunnar Kristjánsson, vísiteraði Njarðvíkurprestakall í gær, þann 6. nóvember. Í Njarðvíkurprestakalli eru einar þrjár sóknir og þannig var nóg að ræða og taka út. Vel var tekið á móti prófasti og hafði hann á orði að sóknarprestur, sr. Baldur Rafn, væri með gott fólk með sér til að sjá um málefni kirkjunnar í öllum sóknum. Ýmislegt hafði bæst við kost kirknanna, bæði með munum, framkvæmdum og viðgerðum sem var fróðlegt að heyra af og gaman að sjá. Það gerðist því skiljanlega að vísitasían drógst vel á langinn og var því orðið áliðið þegar prófastur kvaddi sóknarprest og sóknarnefndarfólk við Njarðvíkurkirkju, margs vísari um stöðu mála í Njarvíkurprestakalli.

Vísitasía í Garðasókn og þjóðkirkjuhugsjónin

Eftir Fréttir

Dr. Gunnar Kristjánsson, Kjalarnessprófastur vísiteraði Garðasókn í gær þann 5. nóvember. Vísitasían var vel heppnuð í alla staði og var Vídalínskirkja full af lífi þegar vísitasíufundur var við það að hefjast. Dr. Gunnar talaði í inngangi sínum að fundinum um eðli þjóðkirkjutrúarinnar sem sé hógvær trú, þar sem enginn greinarmunur sé gerður á stórri eða lítilli trú enda sé trú alltaf trú og réttilega  boðin velkomin í þjóðkirkjunni án aðgreiningar. Þjóðkirkjan sé því ekki sértrúarflokkur sem aðgreini sig frá öðrum og slær sér á brjóst fyrir trúarhita sinn heldur samfélag sem sé tengist þjóðfélaginu á jafningjagrundvelli. Í þjóðkirkjuhugsuninni eigi að vera að finna róttækan samstarfsvilja og öfluga samvinnusækni við aðra hópa og stofnanir samfélagsins. Dr. Gunnar benti á það að í Garðasókn væri slíkt samstarf daglegur, lifandi veruleiki og vísaði þar til nýlegs dæmis um velheppnaða Stjörnumessu í Vídalínskirkju þar sem íþróttafélagið Stjarnan, hljómsveitin  Pollapönk og Vídalínskirkja héldu saman guðsþjónustu þar sem 700 manns mættu. Á fundinum lýsti fundarfólk ánægju með starfið og starfsandann í Garðasókn. Að loknum fundi gaf Garðasókn Dr. Gunnari bók að gjöf sem þakklætisvott fyrir stuðning Kjalarnessprófastsdæmis við starfið en einnig sem virðingarvott við Dr. Gunnar sem þar var að vísitera söfnuðinn í síðasta sinn sem prófastur.

 

Þrjár vísitasíur og ein vísa!

Eftir Fréttir

Í gær, þann 27. október, vísiteraði Kjalarnessprófastur, Dr. Gunnar Kristjánsson, Kálfatjarnarsókn, Ástjarnarsókn og loks Víðisstaðasókn. Var vel tekið á móti prófasti á öllum stöðum og tók hann þar út aðstöðu og fékk fregnir af stöðu ýmissa mála. Prófastur var ánægður með fundina og hafði sérstaklega orð á því hversu glaður hann væri með það góða fólk sem kæmi að umsjón kirknanna og söfnuðanna innan prófastsdæmisins. Löngum fundadegi lauk á skemmtilegri vísu sem Karl Kristenson, kirkjuhaldari í Víðisstaðakirkju flutti fyrir fundarmenn  en í henni er prófasturinn ávarpaður:

Séra Gunnar seg´eg þér
sómi að öllu sýnist hér.
Kirkjustarf af kærleik er
og kunnáttu inspírerað.
Á söfnuðinum all-vel sér
að sálarlífið batna fer.
Guðsorðið með góðu
accepterað.

Þessi kirkja all-margt á
sem einnig með gleði muna má.
Fjallræðuna finn´og sjá
festa upp á veggi.
Að hennar boðskap gestir gá
gleð´ og sælu boðskap fá.
Sýnist það vera hollast fyrir seggi

 

Nýr héraðsprestur!

Eftir Fréttir

Þau ánægjulegu tíðindi hafa nú borist að sr. Hulda Hrönn Helgadóttir hefur verið skipuð héraðsprestur í Kjalarnessprófastsdæmi og mun þar sinna afleysingum og fræðslu.

Sr. Hulda Hrönn útskrifaðist sem guðfræðingur frá Háskóla Íslands árið 1987. Hún er jafnframt með meistaragráðu í kennimannlegri guðfræði frá Edinborgarháskóla þar sem hún stundaði m.a. starfsnám við sjúkrahúsið The Royal Infirmary of Edinburgh á árunum 1995-96. Hún var vígð til prests í Hríseyjarprestakalli árið 1987 og hefur einnig gegnt mörgum öðrum trúnaðarstörfum fyrir þjóðkirkjuna .

Kjalarnessprófastur og prófastsdæmið bjóða sr. Huldu Hrönn velkomna til starfa.

Tölvupóstfang sr. Huldu er hulda.hronn.helgadottir (hjá) kirkjan.is og hægt er að ná í hana í s. 699-0359

Biskup leitar umsagna

Eftir Fréttir

Heyrst hefur að biskup Íslands hafi sent bréf á þjónandi presta, djákna og formenn sóknarnefnda í Kjalarnessprófastsdæmi. Í bréfinu auglýsir biskup eftir umsögnum um þjónandi presta í prófastsdæminu vegna tilvonandi útnefningar á nýjum prófasti. Sitjandi prófastur, dr. Gunnar Kristjánsson, hefur þegar farið yfir málið með formönnum sóknarnefnda á nýafstöðnum haustfundi. Þetta mun enda vera í fyrsta sinn sem formönnum sóknarnefnda er boðið formlega að veita slíka umsögn.

 

Haustfundir prófasts

Eftir Fréttir

Prófastur, Dr. Gunnar Kristjánsson, hélt í vikunni árlega haustfundi sína. Fyrst var fundað með prestum og djáknum á miðvikudeginum 19.sept og síðan með formönnum sóknarnefnda fimmtudaginn 19.sept. Prófastur gerði þar meðal annars kunnnugt að hann myndi vísitera allar sóknir prófastsdæmisins nú á þessu hausti. Prófastur fékk einnig að heyra af stöðu mála í söfnuðunum frá formönnum. Af því var ljóst að margt spennandi er á döfinni nú þegar hauststarf kirkna er farið af stað.  Að auki opnaði prófastur fyrir umræður um stöðu bænarinnar í almannarými og spunnust áhugaverðar umræður um málið bæði meðal presta & djákna sem og sóknarnefndaformanna.

Nýr starfsmaður Kjalarnesprófastsdæmis

Eftir Fréttir

Kjalarnessprófastdæmi hefur tímabundið fengið til liðs við sig nýjan starfsmann. Sá er Grétar Halldór Gunnarsson.  Grétar mun sinna margvíslegum störfum fyrir hönd prófastdæmisins fram að áramótum. Grétar er guðfræðingur að mennt og er með meistaragráðu frá Princeton Seminary í Bandaríkjunum. Hann er einnig við það ljúka doktorsnámi í guðfræði við Háskólann í Edinborg og hefur margvíslega reynslu af störfum fyrir þjóðkirkjuna. Kjalarnessprófastur og prófastsdæmið býður Grétar velkominn til starfa.

Tölvupóstfang Grétars er gretar.halldor.gunnarsson (hjá) kirkjan.is og hægt er að ná í hann í s. 664-6610