Skip to main content
All Posts By

a8

Héraðsfundur

Eftir Fréttir

Miðvikudaginn 28, janúar næstkomandi verður héraðsfundur Kjalarnessprófastsdæmis. Fundurinn fer fram í Strandbergi, safnaðarheimili Hafnarfjarðarkirkju og hefst kl. 17.30. Mörg efni verða tekin fyrir á fundinum sem er sérstaklega merkilegur í ljósi þess að þetta verður síðasti héraðsfundur haldinn í prófaststíð dr. Gunnars Kristjánssonar.

Næsti prófastur hefur verið valinn!

Eftir Fréttir

Þau ánægjulegur tíðindi hafa borist að Agnes M. Sigurðardóttir biskup hefur tilkynnt hver verði næsti prófastur Kjalarnessprófastsdæmis. Sr. Þórhildur Ólafs, prestur í Hafnarfjarðarkirkju, mun taka við embættinu nú þegar Dr. Gunnar Kristjánsson lætur af störfum við lok mánaðarins. Þórhildur hefur um langt skeið búið og starfað í prófastsdæminu en hún var fyrst vígð til starfa í Hafnarfjarðarkirkju árið 1988. Hún er því vel kunnug sögu prófastsdæmisins og mörgum málefnum þess. Dr. Gunnar Kristjánsson, hefur óskað sr. Þórhildi til hamingju með valið og mun vera henni innan handar við að setja sig frekar inn í starf prófasts þegar þar að kemur.

Gleðileg jól

Eftir Fréttir

Kjalarnessprófastsdæmi óskar öllum gleðilegra jóla og farsæls komandi árs. Það minnir einnig á að prófastur, dr. Gunnar Kristjánsson, mun predika í Hafnarfjarðarkirkju á jóladag kl.11 og mun vera hægt að hlýða á guðþjónustuna á Rás 1.

Aðventufundur presta og djákna

Eftir Fréttir

Prófastur bauð prestum og djáknum Kjalarnessprófastsdæmis til aðventufundar í Hafnarborg í Hafnarfirði föstudaginn 12. desember. Ætlunin var sameiginleg uppbygging og samtal í sambandi við þann mikla undirbúning fyrir jólahátíðina sem stendur yfir í öllum kirkjum prófastsdæmisins. Prófastur hélt tölu um jólaguðspjallstextana þar sem hann staðnæmdist sérstaklega við tvö þemu: 1. Hið tímalausa heilagleikahugtak og 2. hið pólitíska inntak jólaguðspjallsins. Umræður fóru fram um erindið en líka önnur mál, fræðileg og praktísk, sem prófastur vildi að yrðu rædd. Góður samhljómur var hjá fundarfólki.

Úrslit: Hönnunarsamkeppni í prófastsdæminu

Eftir Fréttir

Fimmtudaginn 11. desember var tilkynnt um sigurvegara í hönnunarkeppni um nýtt safnaðarheimili Ástjarnarkirkju. Alls höfðu 11 tillögur höfði borist en sigurvegarinn var Arkís arkitektar ehf. Til grundvallar tillögunni var hugmyndin um kirkjuna sem þjón sem birtist í því að safnaðarheimilisbyggingin hefur forgang í byggingarframkvæmdum Ástjarnarsóknar. Margir voru mættir til að skoða vinningstillöguna og þar á meðal prófasturinn í Kjalarnessprófastsdæmi og eiginkona hans enda hafa þau um langa tíð verið áhugafólk um arkitektúr kirkjubygginga og trúarlegra rýma.

 

Vaxandi starf í vaxandi sókn: Vísiterað í Lágafellssókn

Eftir Fréttir

Í gær, þann 18. nóvember vísiteraði Kjalarnessprófastur, Dr. Gunnar Kristjánsson Lágafellssókn. Prófastur er vel kunnugur málefnum sóknarinnar enda deilir hann húsnæði með safnaðarheimili hennar og starfsmönnum og eru dagleg samskipti því mikil þar á milli. Ljóst er að miðað við íbúafjölda þá býr söfnuðurinn við smáar (en vissulega fallegar) kirkjur og safnaðarheimili sem er tengt hvorugri kirkjunni. Þetta hefur verið söfnuðinum áskorun en samt sem áður þá er starfið í vexti, alveg eins og byggðalagið sjálft, sem vex ár frá ári. Nefndu fundarmenn um að þau finndu fyrir miklum hlýhug og velvilja frá fólki í garð kirkjunnar í sókninni. Prófastur kom, af þessu tilefni, inn á efni sem hann hefur áður nefnt á fyrri vístasíufundum. Honum virðist að þrátt fyrir að kirkjan sem stofnun sé á tíðum með vindinn í fangið þá sæki kirkjan heima í héruðunum sífellt í sig veðrið.

Samfélagsleg miðstöð: Vísiterað í Keflavíkursókn

Eftir Fréttir

Prófastur, Dr. Gunnar Kristjánsson, vísiteraði Keflavíkursókn föstudaginn 14. nóvember. Söfnuðurinn sagði frá starfi sem hefur verið í örum vexti með skýran fókus á barnastarf, tónlist og kærleiksþjónustu.  Á 100 ára afmæli kirkjunnar, sem verður nú á komandi ári, má með sanni segja að hún sé trúaruppeldisstöð, menningarstofnun og velferðarþjónusta innan samfélagsins í Keflavíkursókn.

Á fundinum sýndi sóknarnefnd og prestar kirkjunnar prófasti hlýhug fyrir störf hans í gegnum tíðina sem hafa verið Keflavíkursöfnuði til heilla. Nefndi fólk þar styrki, fræðslufundi og fræðsluferðir erlendis sem hafi styrkt þau í störfum sínum.  Í því samhengi voru rifjaðar upp kærar minningar úr slíkum fræðsluferðum til Þýskalands undir leiðsögn Gunnars og eiginkonu hans Önnu Höskuldsdóttur. Fólk var sammála um að það hafi ekki bara verið lærdómsríkar ferðir heldur hafi þær  tengt saman fólkið innan prófastsdæmisins. Skorað var á Gunnar að halda áfram slíkum ferðum nú þegar hann lætur af störfum sem prófastur. Þökkunum og áskorununum fylgdu síðan gjafir til prófastshjónanna.

Meðfylgjandi eru myndir sem voru teknar á fundinum og við skoðun kirkjunni

Prófastur predikar í Hafnarfjarðarkirkju

Eftir Fréttir

Í dag, sunnudaginn 16. nóvember kl 11.00, predikar prófasturinn í Kjalarnessprófastsdæmi dr. Gunnar Kristjánsson í Hafnarfjarðarkirkju. Er það í tilefni af 100 ár afmæli Hafnarfjarðarkirkju. Félagar úr Barbörukórnum syngja. Organisti er Guðmundur Sigurðsson. Prestar kirkjunnar sr. Þórhildur Ólafs og sr. Jón Helgi Þórarinsson þjóna fyrir altari.

„Upp, upp“ – Prófastsdæmið og Stoppleikhópurinn

Eftir Fréttir

Kjalarnessprófastsdæmi hefur gerst aðalstyrktaraðili nýs leikrits Stoppleikhópsins um uppvaxtarsögu sr. Hallgríms Pétursson. Sýningin, sem ber titilinn „Upp, upp“,  er miðuð við ungmenni en hefur verið að hitta í mark hjá öllum þeim sem hafa farið að sjá. Söfnuðir og skólar innan prófastsdæmisins hafa fengið forskot á sæluna með að sjá verkið og nú mun leikhópurinn fara með það um landið allt. Handritshöfundur og leikstjóri er Valgeir Skagfjörð. Leikarar eru Eggert Kaaber, Katrín Þorkelsdóttir og Valgeir Skagfjörð.  Kjalarnessprófastsdæmi er ánægt með að styðja við slíkt verkefni enda er saga Hallgríms samofin svæðum innan prófastsdæmisins og á skáldið 400 ára afmæli á þessu ári.

Þeim sem hafa áhuga á að fá verkið til sýninga er bent á að hafa samband við Eggert Kaaber – eggert (hjá)centrum.is

Gagnkvæmt þakklæti: Vísiterað í Útskálaprestakalli

Eftir Fréttir

Létt var yfir fólki í Útskálaprestakalli þegar Dr. Gunnar Kristjánsson, prófastur, vísiteraði söfnuðina í gær, þann 12. nóvember. Þar hefur verið mikið um að vera á Hallgrímsári enda hóf Hallgrímur Pétursson þar prestsskap sinn á sínum tíma. Að því tilefni hefur nú verið settur fallegur minnisvarði um Hallgrím við Hvalsneskirkju, unninn af Páli Guðmundssyni. Prófastur tók út minnisvarðann um leið og hann tók út kirkjuna og var virkilega hrifinn. Á sameiginlegum fundi sóknanna þakkaði prófastur síðan öllu því góða fólki sem hefur verið að vinna fórnfúst starf, bæði í Hvalsnessókn og Útskálasókn, og sagði gaman að sjá hversu vel öllu væri sinnt. Hann benti á að sumir hefðu starfað jafn lengi og hann sjálfur sem prófastur og jafnvel lengur og að alúð þeirra sæist á allri umgengni. Fólk þáði hrósið með þökkum og þakkaði jafnframt Dr. Gunnari samstarfið undanfarin 17 ár og leysti hann út með blómum. Það var viðeigandi enda var þetta síðasta formlega vísitasía hans í  Útskálaprestakall sem prófastur.