Skip to main content

Fermingin er hátíð

Eftir Fréttir

Á næstu vikum munu 717 börn í söfnuðum Kjalarnessprófastsdæmis stíga fram, krjúpa við altarið og staðfesta að þau vilji leitast við að hafa Jesú Krist að leiðtoga lífsins. Börnin munu fermast í 52 messum í kirkjum í Hafnarfirði, Garðabæ, Mosfellsbæ, Kjós, á Kjalarnesi og Suðurnesjum. Yfir 3000 börn fermast árlega í söfnuðum Þjóðkirkjunnar. Nánar

Börn og unglingar safna fyrir húsum fyrir munaðarlaus börn

Eftir Fréttir

Æskulýðsdagur þjóðkirkjunnar er næstkomandi sunnudag 5. mars. Þá taka börn og unglingar virkan þátt í helgihaldi kirkjunnar og leggja gott að mörkum og láta til sín taka. Unga fólkið í Kjalarnessprófastsdæmi mun sameinast um að hjálpa munaðarlausum börnum í Úganda að eignast heimili í steinhúsi. Það veitir skjól fyrir vindi, rigningu og nætursvalanum og er einnig vörn gegn smiti og veikindum. Af bárujárnsþakinu er hægt að safna vatni og munaðarlausir unglingar læra handverk með því að taka þátt í að byggja húsin. Nýtt hús gefur bjartsýni og von og er margföld blessun. Að verkefninu kemur Hjálparstarf kirkjunnar og fer söfnunin fram með fjölbreyttum hætti. Nánar

Samkirkjuleg bænastund í Ástjarnarkirkju

Eftir Fréttir

Mánudaginn 23. janúar, kl. 20:00 verður samkirkjuleg bænastund með þátttöku frá Hvítasunnukirkjunni, Aðventkirkjunni, Kaþólsku kirkjunni og Þjóðkirkjunni. Bænastundin verður í Ástjarnarkirkju, Kirkjuvöllum 1, Hafnarfirði. Verum öll hjartanlega velkomin.

Bænastundin er hluti af dagskrá alþjóðlegrar samkirkjulegri bænaviku og í ár er hún tileinkum fimm alda minningu siðbótarinnar. Efni bænavikunnar kemur frá Þýskalandi og áhersla er lögð á að fagna kærleika Krists sem knýr kristið fólk til að iðka sátt og stuðla að samlyndi í daglegri trúargöngu sinni.

 

 

Leiðarþing

Eftir Fréttir

Leiðarþing Kjalarnessprófastsdæmis verður haldið nú miðvikudaginn 12. október kl. 17.30. Mun Leiðarþingið fara fram í Strandbergi. Helstu mál á dagskrá eru hugmyndir um samstarf á milli prófastsdæmanna og Biblíufélagsins, tillögur að nýjum þjóðkirkjulögum sem taka á fyrir á kirkjuþingi og ályktun um prestamál í prófastsdæminu. Loks mun dr. Sigurjón Árni Eyjólfsson halda erindi um mikilvægi leikmannsins í lútherskri hefð.

Prófastur hefur vísitasíur

Eftir Fréttir

Prófastur Kjalarnessprófastsdæmis, sr. Þórhildur Ólafs, fer nú um prófastsdæmið og vísiterar sóknirnar. Þegar hefur hún vísiterað Bessastaðasókn, Ástjarnasókn og Víðistaðasókn.

Í Bessastaðasókn fékk hún fréttir af starfinu og skoðaði allar aðstæður sem eru sífellt að verða betri, þökk sé samhentu átaki allra aðstandenda sóknarinnar. Sömuleiðis átti prófastur gott spjall við forseta Íslands sem er nú nýtekinn við embætti og hefur yfir Bessastaðakirkju að segja.

Í Ástjarnasókn var spennandi að taka út stórglæsilegt safnaðarheimili sem nú rís þar fyrir einstaka elju starfsfólks og velunnara sóknarinnar. Prófastur tók þar undir áhyggjur heimamanna af prestamálum en ljóst er að prestakallið er of fjölmennt til að hafa eingöngu einn prest.

Í Víðistaðasókn var fróðlegt að heyra að faglegu kirkjulegu starfi og metnaðarfullum tilraunum til áframhaldandi safnaðaruppbyggingar á góðum grunni.

Á öllum stöðum hefur verið vel tekið á móti prófasti.

Haustfundir Kjalarnessprófastsdæmis

Eftir Fréttir

Haustfundir Kjalarnessprófastsdæmis fóru fram 21. og 22. september. Þar funduðu fyrst prestar og djáknar um sín mál og síðan formenn sóknarnefnda sem ræddu málefni sóknanna. Að lokum hefðbundnum fundi  fengu allir að njóta áhugaverðs námskeiðs frá Thomasi Möller um tímastjórnun og skipulag. Það sem lærðist þar mun vonandi koma að gagni í störfum fyrir sóknirnar.

Styttist í ráðstefnu með Rob Bell

Eftir Fréttir

Kjalarnessprófastsdæmi er samstarfsaðili að flottri ráðstefnu sem fara mun fram í Langholtskirkju 1. -2. september næstkomandi.

Rob Bell er bandarískur metsöluhöfundur, þáttastjórnandi og prestur. Skrif hans um trúmál hafa haft slík áhrif að Time Magazine hefur útnefnt Bell sem einn af 100 áhrifamestu mönnum heims. Rob Bell þykir einkar laginn við að ná sambandi við það fólk sem á erfitt með að tengja við boðskap trúarinnar og gæti því verið vegvísir fyrir okkur á Íslandi um hvernig beri að eiga samtal um trúna. Meðfram komu Rob Bell til landsins kemur út í íslenskri þýðingu bók hans : „Það sem við tölum um þegar við tölum um Guð“

Kjalarnessprófastsdæmi er samstarfsaðili að þessum flotta viðburði og því stendur prestum, djáknum, sóknarnefndarformönnum og æskulýðsfulltrúum í Kjalarnessprófastsdæmi til boða að mæta þeim að kostnaðarlausu. En það verður að skrá sig með því að senda tölvupóst á gretar.gunnarsson (hja) kirkjan.is. Hádegisverður og kaffi er innifalið.

Frekari upplýsingar um dagskrá viðburðarins er að finna á www.gudspjall.is

 

Færeyjarbiskup í móttöku prófasts

Eftir Fréttir

Í næstu viku mun Færeyjabiskup heimsækja íslands ásamt stóru fylgdarliði færeyskra presta. Mun Kjalarnessprófastsdæmi veita hópnum góðar viðtökur og  ætlar prófastur að bjóða þeim í kvöldverð í Strandbergi, safnaðarheimili Hafnarfjarðarkirkju.

Starfsviðtöl prófasts

Eftir Fréttir

Prófastur fer þessa dagana um prófastsdæmið og ræðir við prestana í í prófastsdæminu. Um er að ræða einskonar starfsviðtöl þar sem prófastur heyrir  hljóðið í prestum og leyfir þeim að meta störf sín og starfsaðstæður í sóknunum.

Vorfundir í Kjalarnessprófastsdæmi

Eftir Fréttir

Vorfundir Kjalarnessprófastsdæmis taka nú við hver að öðrum.

Vorfundur organista er 28. apríl kl 09.30 í Strandbergi, Hafnarfirði. Vorfundur presta og djákna er 3. maí kl. 09.30 í Strandbergi, Hafnarfirði og vorfundur sóknarnefndaformanna er 4. maí kl. 17.30 í Strandbergi, Hafnarfirði.